Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.
Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.
Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.
Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.
Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.
Svo er röðin komin að Kristjánshöfn