La Pietà
Við göngum úr görðunum út á lónsbakkann og förum hann langleiðina til baka til hertogahallarinnar, um hálfs annars kílómetra leið. Milli skurðanna Rio della Pietà og Rio dei Greci komum við að framhlið kirkju. Við getum líka sleppt því að skoða þessa kirkju og tekið almenningsbát beint frá bátastöðinni Giardini við vesturenda garðanna.
Endurreist 1745-1760, með framhlið frá 1906, upprunalega kirkja munaðarleysingjahælis, en núna einkum notuð fyrir tónleika, sem haldnir eru að minnsta kosti mánudaga og fimmtudaga árið um kring.
Hælið varð frægt fyrir kóra og frægast fyrir kórstjórann Antonio Vivaldi, sem samdi hér ótal óratóríur, kantötur og önnur verk fyrir kóra. Kirkjan er raunar stundum kölluð Chiesa di Vivaldi eftir honum, enda skipa verk hans heiðursess í dagskránni.
Vivaldi var frægasti tónsnillingur Feneyja, uppi 1678-1741. Hann lærði til prests og starfaði fyrri hluta ævinnar sem kórstjóri Pietà munaðarleysingja-hælisins. Hann samdi rúmlega 770 tónverk, þar á meðal 46 óperur, flestar þeirra frumfluttar í Feneyjum. Uppáhalds-hljóðfæri hans var fiðlan. Hann notaði hana mikið sem einleikshljóðfæri í verkum sínum.
Við ljúkum þessari gönguferð með því að fara tæplega 300 metra leið eftir bakkanum frá kirkjunni til Palazzo Ducale.
Næst förum við í göngu um hverfin Dorsoduro og San Polo.