8. Dorsoduro – Giambattista Tiepolo

Borgarrölt

Gesuati, Feneyjar 2

Gesuati

Við yfirgefum Accademia, göngum austur fyrir safnið og göngum Rio terrà Antonio Foscarini niður á lónsbakkann, rúmlega 300 metra leið. Þar er kirkjan Gesuati á hægri hönd.

Munkakirkja dóminíkana frá fyrri hluta átjándu aldar, mikið skreytt að innanverðu.

Þekktust er hún fyrir loftfreskur Giambattista Tiepolo með samspili ljóss og skugga. Í kirkjunni eru líka altarismyndir eftir Tintoretto og Tiziano.

Giambattista Tiepolo

Við athugum nánar loftmyndirnar eftir Tiepolo.

Svifstílsmálarinn Giambattista Tiepolo var uppi 1696-1770, meira en heilli öld á eftir Veronese, langsíðastur hinna frægu málara Feneyinga. Verk hans eru svanasöngur feneyskrar myndlistar. Hann naut mikillar hylli í heimaborg sinni, en vann einnig töluvert við erlendar hirðir, þar á meðal hjá Karli III Spánarkonungi.

Tiepolo notaði ljós og skugga eins og flestir fyrri málarar Feneyja, en lagði meiri áherzlu en aðrir á milt samspil pastel-lita. Loftfreskurnar í Gesuati eru dæmigerð verk hans, sem og málverkið af heilagri guðsmóður og englunum.

Verk eftir hann má meðal annars einnig sjá í safninu Accademia hér í nágrenninu, í kirkjunni San Polo og í söfnunum í Palazzo Labia og Ca’Rezzonico.

Næstu skref