8. Forna Róm – Basilica Julia

Borgarrölt

Forum Romanum, Roma 6

Basilica Julia

Við höldum nú framhjá Fókasarsúlu meðfram grunni hinnar risastóru, fimm skipa Júlíubyrðu, Basilica Julia, sem stóð andspænis Emilíubyrðu við torgið, reist á vegum Cesars 55 f.Kr og fullgerð á vegum Augustusar keisara árið 12. Hún gegndi svipuðu hlutverki og Emilíubyrða, verzlun og dómstörfum. Framan við byrðuna sjást leifar af súlnaröð, sem reist var um aldamótin 300 til heiðurs herforingjum.

Í framhaldi af Júlíubyrðu standa enn þrjár snæhvítar kórinþusúlur frá stjórnartíma Augustusar úr hofi Castors og Polluxar, sem upphaflega var reist á 5. öld f.Kr. til minningar um sigur í orrustunni við Regillusarvatn 496 f.Kr.

Vestae

Við förum áfram milli þessa hofs og Juliusarhofs, sem stóð við suðausturenda torgsins. Það hof var hið fyrsta í röð hofa keisaradýrkunar, tileinkað Juliusi Cesar keisara, reist 29 f.Kr.

Forum Romanum, Roma 7

Vestae fremst fyrir miðju, þar fyrir aftan þrjár súlur úr hofi Castor et Pollux

Við stefnum beint á hringlaga hof Vestumeyja. Þar sátu kvenprestar og gættu Rómarelds og helgigripa Rómarveldis allt frá 6. öld f.Kr. Þær rústir, sem nú sjást, eru frá valdatíma Severusar í upphafi 3. aldar.

Að baki hofsins eru leifarnar af Vestae, stórhýsi Vestumeyja, þar sem kvenprestarnir bjuggu. Enn má sjá innigarð þeirra með tveimur laugum.

Ofan við Vestae til hægri sjáum við leifar keisarahallar Caligula í hlíðum Palatinum-hæðar.

Palatinum, Roma

Leifar af höll Caligula á Palatinum, séð frá Vestae

Við gögum út úr garðinum til vinstri og förum þar aftur inn á Via Sacra, aftan við Regia, sem var á lýðveldistíma Rómar aðsetur æðstaprests Rómar, Pontifex Maximus. Regia er að baki áðurnefnds Juliusarhofs.

Næstu skref