Gammeltorv
Við beygjum til hægri eftir Ráðhússtræti (Rådhusstræde) upp á Nýjatorg (Nytorv) og Gamlatorg (Gmmeltorv). Þessi torg voru áður fyrr miðstöð daglega lífsins í Kaupmannahöfn. Enn er fjörugt hér, en eingöngu vegna þess, að Strikið liggur þvert í gegn.
Bæjarþing voru háð á Gamlatorgi. Ráðhúsið var á mótum torganna efst á Nýjatorgi fram að brunanum 1795. Þá var það ekki endurreist á sama stað. Torgin voru í staðinn sameinuð í eitt og mynda nú langan ferhyrning með virðulegum húsum á alla vegu.
Hér héldu konungar burtreiðar til að skemmta lýðnum. Hér voru framkvæmdar hýðingar og aftökur, lýðnum bæði til viðvörunar og skemmtunar. Hér var auðvitað gapastokkurinn og svartholið. Hér var bjórsala borgarráðsmanna í Ráðhúskjallaranum. Hér komu fram farandtrúðar og -listamenn. Hér var húllum og hér var hæ.
Nú er neðst til vinstri við Nýjatorg dómhús Kaupmannahafnar. Á miðju Gamlatorgi er eitt elzta augnayndi borgarinnar, brunnurinn frá 1608-10. Þar eru gulleplin látin skoppa á konunglegum afmælisdögum. Og hér á torginu eru sæti, svo að við getum fengið okkur kaffi eða öl og horft á fólksstrauminn fara hjá.
Helligåndshuset
Við beygjum síðan norður Strikið, fyrst eftir Nýjugötu (Nygade), síðan Vimmelskaftet, unz við komum að Heilagsandakirkju (Helligåndskirken) á mörkum Amákurtorgs (Amagertorv), endurreistri 1730-32 eftir borgarbruna. Við göngum hjá kirkjunni og beygjum til vinstri inn Hemmingsensgade til að skoða Heilagsandahúsið að baki kirkjunni.
Það er sambyggt kirkjunni og er eitt allra elzta mannvirki Kaupmannahafnar, reist um miðja 14. öld. Það var upprunalega sjúkrastofa Ágústínusarklausturs, er þarna var á kaþólskum tíma.