Veitingar
Hádegisverðartími er 12:30-14, kvöldverðartími 19:30-22. Yfirleitt skilur eigandinn eða einhverjir þjónar ensku. Feneysk veitingahús eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanalega innréttuð. Þau hafa yfirleitt lín á borðum og línþurrkur, oftast hvítar.
Hvergi í heiminum er þjónusta betri en á Ítalíu. Þjónar eru yfirleitt fljótir og afkastamiklir. Þeir fylgja vel eftir með nýjum réttum, þangað til þú ert kominn í síðasta rétt. Þá hægir á öllu. Ítalir virðast vilja snæða hratt og fara sér síðan hægt yfir vínglasi eða kaffi. Snör þjónusta þýðir ekki, að þjónninn vilji losna við þig.
Matarvenjur
Ítalir borða ekki mikið á morgnana. Þeir fá sér espresso eða cappucino og cornetto smjördeigshorn á kaffihúsi götuhornsins. Hádegismatur í Feneyjum hefst oftast kl. 13 og kvöldverður kl. 20. Bæði hádegisverður og kvöldverður eru heitar máltíðir og jafn mikilvægar. Ítölum geðjast að mat og innbyrða hann svikalaust.
Þeir fara hins vegar varlega með vín og sumir drekka aðeins vatn. Kranavatn er drykkjarhæft í Feneyjum. Í veitingahúsum drekka samt flestir vatn af flöskum, aqua minerale, kallað frizzante, ef það er sódavatn.