8. Írland – Carrickfergus

Borgarrölt
Carrickfergus Castle, Norður-Írland

Carrickfergus Castle

Carrickfergus

Við ökum úr bænum, fyrst M2, síðan M5 og loks A2, samtals stutta leið til Carrickfergus úti við sjóinn. Við stönzum á bílastæði við bátahöfn og kastala, sem er áberandi við aðalgötu bæjarins.

Carrickfergus Castle stendur á sjávarhömrum, upprunalega laus frá meginlandinu. Hann er normanskur kastali frá 1180, einn af stærstu og bezt varðveittu kastölum á Írlandi. Hann varði innsiglinguna til Belfast og var lengi eitt helzta virki Englendinga gegn írskum uppreisnarmönnum. Hann var þó tekinn þrisvar, af Skotum 1315, af mótmælendum 1689 og Frökkum 1760.

Í kastalanum er safn, sem segir sögu hans. Elzti hlutinn er innsta og hæsta virkið, en utar eru tvö yngri virki. Kastalinn er afar gott sýnishorn af verk- og varnartækni hinna fransk-norrænu Normanna á miðöldum.

Dobbin’s

Við göngum þvert yfir aðalgötuna til gamla kráarhótelsins á staðnum.

Dobbin’s Inn er dæmigert hótel í fornu húsi í gömlum stíl írskum, frægast fyrir nafnkunnan draug, “Maud”, sem þar er sagður búa. Frá hótelinu eru neðanjarðargöng til kastalans og til bæjarkirkjunnar. Hér getum við gist eða matast eða farið á krána áður en við höldum lengra.

Næstu skref