8. Midtown – St Patrick’s Cathedral

Borgarrölt

St. Patrick’s Cathedral

Við göngum til baka Channel Gardens og snúum til norðurs eftir 5th Avenue. Andspænis er tízkuverzlunin Saks. Hérna megin götunnar er International Building með hinni frægu styttu af Atlasi eftir Lawrie fyrir framan.

Paley Park, New York

Paley Park

Handan götunnar er höfuðkirkja kaþólikka í borginni, St Patrick’s Cathedral, reist 1879. Hún var langt uppi í sveit, þegar hún var reist, en er nú eins og dvergur á milli skýjakljúfanna. Samt er hún ellefta stærsta kirkja í heimi. Í höfuðdráttum er hún í gotneskum stíl, þótt svifsteigurnar vanti.

Endalausum skrúðgöngum írskra landnema lýkur við kirkjuna á degi heilags Patreks. Þá er allt á hvolfi í bænum og allar krár fullar af þyrstu fólki.

Paley Park

Við göngum til hægri inn í 53rd Street. Þar er á vinstri hönd auð lóð, sem hefur verið gerð að yndislegum, litlum garði, Paley Park. Þar drekkja fossaföllin umferðarhávaðanum og þar er hægt að fá sér eina með öllu og kók. Paley Park er skólabókardæmi um, hversu vel er hægt að nýta lítið svæði. En við förum til baka út á 5th Avenue.

Við 53rd Street, handan 5th Avenue, er Museum of Modern Art, höfuðsafn borgarinnar.

Næstu skref