8. San Marco – Campo San Bartolomeo

Borgarrölt
Campo San Bartolomeo, Feneyjar

Stefnumótatorgið Campo San Bartolomeo

Campo San Bartolomeo

Að þessu sinni förum við norður úr torginu eftir Merceria 2 Aprile tæplega 100 metra leið til helzta stefnumótatorgs borgarinnar, Campo San Bartolomeo.

Að lokinni vinnu mæla Feneyingar sér mót hér á torginu til að undirbúa kvöldið. Styttan af leikskáldinu Carlo Goldoni á torginu miðju gegnir sama hlutverki og klukkan á Lækjartorgi gegndi fyrr á árum í Reykjavík. Á þessum slóðum er mikið um kaffibari.

Rétt hjá torginu er veitingahúsið Al Graspo de Ua.

Ponte Rialto, Feneyjar

Salizzada Pio X við Ponte Rialto

Salizzada Pio X

Við torgið beygjum við til vinstri eftir Salizzada Pio X, rúmlega 50 metra að Rialto-brú til að skoða minjagripaverzlanir brúarsvæðisins.

Kjötkveðjuhátíðargrímur eru ein helzta minjagripavara Feneyja. Þær eru gerðar eftir fyrirmyndum úr Commedia dell’Arte leikhúshefðinni. Kristall er önnur helzta minjagripavaran, yfirleitt handblásinn í gleriðjum Murano-eyjar. Hin þriðja eru blúndur frá eyjunni Burano og hin fjórða eru vörur úr handunnum marmarapappír. Allt þetta fæst í götusundunum við brúna.

San Giovanni Crisostomo

Eftir að hafa gengið upp á Rialto brú til að skoða okkur um, snúum við til baka eftir Salizzada Pio X út á Campo San Bartolomeo, þar sem við beygjum til vinstri og förum um 250 metra leið eftir Salizzada di Fontego de Tedeschi og Salizzada San Giovanni Crisostomo til kirkjunnar San Giovanni Crisostomo. 

Fremur lítil krosskirkja grísk, frá 1479-1504, í rauðbrúnum lit, skreytt málverkum eftir Giovanni Bellini og Sebastiano del Piombo. Hún er þægilegur áningarstaður í ys og þys gatnanna í kring.

Andspænis kirkjunni er veitingahúsið Fiaschetteria Toscana.

Næstu skref