85.000 síður

Greinar

Mikið blómaskeið er í þýðingum á Möltu um þessar mundir. Verið er að þýða 85.000 síður af reglugerðum á maltversku á kostnað Evrópusambandsins, þótt margir Maltverjar tali ensku vegna ferðamanna. Maltverska er orðin ein af tungum Evrópusambandsins og nýtur auðvitað forgangs yfir íslenzku.

Maltverjar eru 400.000, lítið fleiri en Íslendingar. Þeir kusu að ganga í Evrópusambandið, ekki til að fjölga störfum við þýðingar milli tungumála, heldur til að verða aðilar að göngu Evrópu fram eftir efnahagsvegi, rétt eins og þjóðir Austur-Evrópu. Tungumálið nýtur breytingarinnar í leiðinni.

Eins og Íslendingar hafa Evrópumenn almennt fremur lítinn áhuga á Evrópusambandinu. Búizt er við, að innan við helmingur kjósenda greiði atkvæði um helgina í þingkosningum stærsta efnahagsveldis heims, sem telur rúmar 450 milljónir íbúa í 25 ríkjum Evrópu eftir stækkunina snemma á þessu ári.

Hvorki Íslendingar né þjóðirnar í Evrópusambandinu gera sér grein fyrir áhrifum sambandsins á líf þeirra. Fyrir flestum er sambandið fjarlægt skriffinnskubákn í Bruxelles, sem framleiðir reglugerðir um allt milli himins og jarðar, þar á meðal um svefntíma langferðabílstjóra og blaðburðarbarna.

Allar nýju þjóðirnar vilja taka upp evruna, mikilvægasta afrek Evrópusambandsins, krúnuna á frjálsum markaði allrar Evrópu. Allar taka þær upp flókinn lagaramma, er miðast við félagslegan markaðsbúskap, sem er að ýmsu leyti öðru vísi en grimmur frumskógur markaðsbúskaparins í Bandaríkjunum.

Evrópusambandið hefur tekið miklu drengilegar á velferð og umhverfi en nokkur annar heimshluti. Þetta kann að hafa dregið úr hagvexti í Evrópu í samanburði við Bandaríkin. Þegar slíkur samanburður er gerður, má þó ekki gleyma, að öll ár er hagvöxtur í Evrópu. Álfunni miðar fram eftir vegi.

Menn taka kostum Evrópusambandsins sem gefnum hlutum og einblína á galla þess. Menn gleyma, hvernig markaðsmál og önnur samskipti milli ríkja voru í Evrópu fyrir tíð sambandsins. Því hefur sem fjarlægu skriffinnskubákni ekki tekizt að skapa sér sæti í hjörtum evrópskra kjósenda.

Halli á lýðræði er gallinn við Evrópusambandið. Embættismenn þess skilja ekki, hvernig fólk hugsar. Leiðtogar þess hafa ekki sannfæringarkraft fyrirrennara á borð við Adenauer og De Gaulle, Monnet og Schuman. Í samanburði við þá eru Chirac og Schröder smápólitíkusar á borð við Davíð og Halldór.

Íslendingar hafa valið þá leið að nýta ekki kosti evrunnar, en aðlagast Evrópu með því að þýða reglur hennar grimmt á íslenzku án þess að hafa nokkuð um innihaldið að segja.

Jónas Kristjánsson

DV