9. Búðir – Regent Street

Borgarrölt
Liberty, London

Liberty

Liberty

Nú höldum við suður austurhlið Regent Street og höldum áfram að líta í glugga. Brátt komum við að Liberty, frábæru vöruhúsi í dýrari verðflokki en þau, sem við sáum við Oxford Street. Liberty er á nr. 210 við Regent Street, en snýr fallegu bindingsverki út að Great Marlborough Street. Sá hluti er smíðaður úr viðum tveggja síðustu tréherskipa flotans árið 1924. Hér inni fást afar fræg, áprentuð baðmullarefni og austurlandateppi, fínt silki og húsbúnaður. Allt er til frá forngripum til hátízku.

Galt

Bak við Liberty, á horni Great Marlborough Street og Carnaby Street, er Galt, sérhæfð verzlun í uppeldisleikföngum, sem mörg eru beinlínis framleidd fyrir búðina. Tré er mikið notað í aðlaðandi leikföngin. Þetta er kjörin gjafabúð foreldra, sem vilja vanda til leikfanga barna sinna.

Hamley´s

Hamley, London

Hamley´s

Við látum Carnaby Street og túristana þar eiga sig, því tími þeirrar götu er löngu liðinn, sællar minningar. Þess í stað hverfum við til baka til Regent Street og beygjum þar til suðurs framhjá Liberty að Hamley´s á nr. 200. Það er hrikalegasta leikfangaverzlun heims.

Huntsman

Huntsman, London

Huntsman

Hér förum við beint yfir Regent Street og inn Conduit Street og beygjum svo til vinstri í Savile Row, aðsetur flestra frægustu klæðskera Bretaveldis. Hátindurinn er Huntsman á nr. 11, klæðskeri konunga og lávarða. Um 1800 var búðinni breytt úr hanzkabúð í reiðfatabúð, sem síðan þróaðist yfir í almennan klæðaskurð. Sérgrein Huntsman er þó enn sportklæðnaður. Þarna er saumað hvað sem er á karla og konur, meira að segja úr denim. En við megum búast við tólf vikna afgreiðslufresti og GBP 400 lágmarksgreiðslu fyrir föt, sem eiga að endast í aldarfjórðung, ef línurnar eru passaðar.

Slater & Cooke, Bisney & Jones

Slater & Cooke, London 2

Slater & Cooke, , Bisney & Jones

Við enda Savile Row beygjum við til vinstri Vigo Street, förum yfir Regent Street og beint inn í Brewer Street. Þar á nr. 67 er kjötbúðin með þessu langa nafni. Hún er frá 1860 og er enn ein fallegasta kjötverzlun borgarinnar. Sérhver kjöttegund er út af fyrir sig og uppstillingar eru einkar hvetjandi fyrir bragðlaukana. Því er gott að ljúka hér búðarápinu í Soho og bregða okkur inn í eitthvert veitingahúsið í nágrenninu.

Næstu skref