9. Córdoba – Mesquita

Borgarrölt

Mesquita, Córdoba 2

Mesquita

Mesquita í Córdoba er sannkallað furðuverk. Hún var reist árið 785 og var þá nýjung í sögu byggingarlistar, því að skeifubogar hennar eru tveggja hæða. Það gefur henni aukna hæð og rými. Síðar var moskan stækð nokkrum sinnum og jafnan í sama stíl, síðast árið 987.

Dans við Mesquita, Córdoba

Dans við Mesquita

Mesquita er skógur 850 súlna í 10 röðum og virðist sums staðar vera nánast endalaus. Ofan á súlunum hvíla tvöfaldir márískir skeifubogar, röndóttir, til skiptis úr hvítum kalksteini og rauðum tígulsteini. Í heild er moskan þögull undraheimur margvíslegra ljósbrota, þar sem blæbrigðin breytast við hvert fótmál.

Að grunni til er Mesquita svipuð hefðbundnum safnaðarmoskum. Að utan er hún girt voldugum múrum. Fyrir innan þá er fremst Appelsínutrjágarðurinn, sem er forgarður með voldugum bænaturni og hreinsunarbrunni. Inni er moskan fyrst og fremst súlnaskógur, með bænaþili innst. Þar eru flóknar, marglaufa fléttur skeifuboga, svo og stefnugróf, sem markar áttina til Mekka.

Inni í miðjum súlnaskóginum var reist fremur ljót dómkirkja á 16. öld, þegar kristni hafði ýtt íslam til hliðar í Córdoba, en hún drukknar inni í moskunni.

Næstu skref