9. Danmörk – Legoland

Borgarrölt
Legoland, Billund, Jylland

Legoland, Billund

Legoland

Næsta morgun leggjum við enn af stað um níuleytið og förum úr bænum á A10/E3. Fljótlega beygjum við af honum í átt til Billund. Ferðin til Billund er 40 km löng. Við komum að hliðum Legoland, þegar sá ævintýraheimur barna er opnaður kl. 10. Hér sleppum við börnunum lausum fram yfir hádegið og gerum bara hlé til að fá hádegissnarl í Vis-a-Vis, sem er í beinum tengslum við garðinn.

Legoland er eign Lego System, framleiðanda hinna frægu, litlu kubba. Aðalaðdráttaraflið er lítið land, byggt úr 20 milljónum legó-kubba. Þar eru miðaldabæir og þorp, stæling á Amsterdam og öðrum þekktum bæjum í Rínarhéruðum, Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Við dáumst að notkunarmöguleikum þessara kubba.

Börnin hafa líka gaman af að reyna ökuhæfni sína í bílskólanum og fá skírteinin sín á eftir. Þarna er líka sérstætt safn með 350 gömlum dúkkum og um 40 brúðuhúsum, brúðuleikhús með sex sýningum á dag, þorp úr villta vestrinu og Indjánabúðir, gullgröftur og smáhestagarður, lest, bílar, bátar og smábarnaleikvellir.

Givskud dyrepark, Jylland

Givskud dyrepark

Frá Billund förum við veginn til Give. Þegar við erum komin gegnum þorpið, beygjum við til hægri í átt til Vejle. Eftir um 25 km frá Legolandi komum við að ljónagarðinum Givskud. Það er eins konar safari-garður, sem hefur ljón að helzta aðdráttaraflinu. Hann minnir á Knuthenborg að því leyti, að gestir geta ekið um hann og þurfa stundum að krækja fyrir dýr, sem liggja á veginum.

Auk ljóna eru í Givskud fílar, villisvín, antilópur, úlfaldar, tapírar, flóðhestar, zebradýr, strútar, lamadýr og margir sjaldgæfir fuglar. Þar er einnig leikvöllur, þar sem börn geta fengið að kynnast dýrum. Givskud er lokað hálfum þriðja tíma fyrir sólarlag á sumrin.

Næstu skref