9. Dublin – Dublin Castle

Borgarrölt
Castle Hall, Dublin Castle, Dublin

Castle Hall, Dublin Castle

Við förum meðfram City Hall upp að borgarkastalanum, sem er beint aftan við ráðhúsið, og förum um undirgöng inn í efri kastalagarðinn.

Dublin Castle var reistur 1204 til varnar brezkum yfirráðum yfir Írlandi. Smám saman var kastalanum breytt í stjórnarhöll, sem nú er sumpart frá síðari hluta 17. aldar og sumpart frá miðri 18. öld.

Andspænis okkur eru ríkissalirnir, sem eru opnir almenningi, aðgangur £1, gengið inn úr neðri kastalagarðinum að austanverðu.

Most Holy Trinity, Dublin Castle, Dublin

Most Holy Trinity, Dublin Castle

Fyrir aftan okkur, þar sem við komum inn í efri garðinn, er Castle Hall, fallegt hús með háum turni frá 1750. Úr þeim turni var krúnudjásnunum stolið árið 1907 og hafa þau síðan ekki fundizt.

Í neðra garði er Most Holy Trinity kirkjan frá 1814 og fyrir aftan hana púðurturninn, sem er elzti hluti kastalans, frá 1202-1228.

Næstu skref