9. Holland – Volendam

Borgarrölt

Frá Zaanstad förum við fyrst í átt til Amsterdam,en beygjum svo á E10 til að komast til þorpanna Marken og Volendam á bökkum Ijsselmeer. Sama er, hvort þorpið við tökum fyrst fyrir, en hér byrjum við á Volendam.

Volendam

Volendam

Við breytingu flóans Zuiderzee í stöðuvatnið Ijsselmeer urðu sjómennirnir í þessum tveimur fiskiþorpum atvinnulausir. Í staðinn er kominn túrisminn. Íbúarnir lifa á að ganga í þjóðbúningi og selja ferðamönnum minjagripi. Í rauninni er þetta hálfgert plat, en ferðamaðurinn getur vel lokað augunum fyrir því.

Volendam er á fastalandinu og þar eru íbúarnir kaþólskir. Höfnin er mjög falleg, svo og litlu, sætu húsin að baki aðalgötunnar meðfram ströndinni. En við látum ekki hina grófari kaupsýslumenn staðarins plata okkur

Marken

Marken er úti á eyju, andspænis Volendam, tengd meginlandinu með brú. Þar eru íbúarnir kalvínstrúar og bera aðra þjóðbúninga en kaþólikkarnir í Volendam. Ekki kæmi mér á óvart, að þeir notuðu aðra mállýzku þarna í nokkurra kílómetra fjarlægð frá hinu þorpinu.

Í framhjáhlaupi má geta þess, að hollenzka er ekki síðbúin lágþýzka, heldur gamalt mál, sem á þjóðflutningatímanum í lok fornaldar var orðið að sérstakri grein á germanska málameiðinum, náskyld máli Engla og Saxa, er námu Bretlandseyjar. Því má staðsetja hollenzku á milli þýzku og ensku.

Við skulum ekki láta okkur liggja neitt á. Þegar líður á síðdegið hverfa rúturnar með ferðamannaflauminn og við fáum tækifæri til að rölta um í friði, skoða litlu höfnina, húsin grænu og svörtu og fallega útsauminn í gluggatjöldunum.

Harderwijk

Um klukkustundar leið til austurs úr Amsterdam, eflir vegunum A1 og A28, er litli strandbærinn Harderwijk með gömlum húsum frá Hansatíma. Þar er líka helzta sædýrasafn Hollendinga. Stjarna þess er háhyrningurinn Guðrún, sem var veidd við Ísland haustið 1976 og sýnir hún fimleika.

Utrecht

Vegur A2 liggur hálftíma leið suður frá Amsterdam til Utrecht, hinnar gömlu háskólaborgar, þar sem hollenzka lýðveldið var stofnað árið 1579 sem varnarbandalag gegn Spánarveldi. Í háskólabókasafninu er hin fræga Trektarbók með íslenzkum Eddukvæðum.

En notalegasti staðurinn í Utrecht er síkisbakki Oude Gracht, sem er á tveimur hæðum, með gangstéttarkaffihúsum og veitingahúsum í friði fyrir umferð bíla.

 

Schiphol

Holland kveðjum við yfirleitt á Schiphol, flugvellinum við Amsterdam. Hann er eitt stolt Hollands, sem við megum ekki gleyma. Fríhöfnin þar er viðurkennd sem hin bezta í heimi. Vín, áfengi og tóbak er mun ódýrara þar en á Keflavíkurflugvelli, svo að þaðb orgar sig að bera það um borð. Ekki má heldur gleyma breytilegu tilboði mánaðarins hjá flestum verslunum fríhafnarinnar, þar sem hægt er að fá ýmislegt með verulegum afslætti frá fríhafnarverði.

Á Schiphol er hægt að kaupa reyktan ál og vindþurrkaða skinku í handhægum umbúðum, ferskar kæfur og hollenzka osta, svo og ýmislegt fleira handa matgæðingum. Þar fást og ekta Havanavindlar, sem ekki fást hér, ekki einu sinni í fríhöfninni, svo sem Davidoff og Montechristo. Þeir eru geymdir þar við góð skilyrði og fást á ljúfu verði. Fjöldinn af raftækjum er mikill, til dæmis smátölvum. Og svo auðvitað ilmvötnin og blómin.

Við skulum kveðja Amsterdam með blómvönd í fanginu.