9. Írland – Carrick-a-Rede

Borgarrölt

Ballygally

Við ökum nú greiða leið áfram A2 og stönzum ekki fyrr en við gamalt kastalahótel á vegarbrúninni við sjávarsíðuna.

Ballygally Castle var reistur 1625 í skozkum stíl, enda er í góðu skyggni útsýni úr honum til Skotlands. Hann er vel varðveittur í upprunalegu ástandi, en mestur hluti hótelsins er í viðbyggingu. Sum gistiherbergin eru í gamla kastalanum og er sjálfsagt að panta þau.

Cushendun

Carrick-a-Rede, Norður-Írland

Carrick-a-Rede

Áfram höldum við A2 til Glenariff, þar sem okkur eru tveir kostir á höndum. Við getum farið til vinstri smáhringferð eftir A43 um Glenariff-skóg og -foss og síðan B14 til Cushendun eða farið til hægri með sjónum eftir B92 til Cushendall og Cushendun.

Cushendall og Cushendun eru rómantísk þorp við ströndina. Hið síðarnefnda er allt undir verndun þjóð–minjalaga. Hvít og friðsæl smáhús lúra milli
stóra trjáa við breiðar götur.

Carrick-a-Rede

Frá Cushendun förum við aftur inn á A2 og á honum til Ballycastle, þar sem við beygjum til hægri eftir B15 og komum fljótlega að bílastæði, þaðan sem gengin er hálftíma leið að frægri hengibrú fyrir göngufólk.

Carrick-a-Rede er 20 metra löng göngubrú, sem liggur í 25 metra hæð frá landi yfir í höfða, þar sem fiskimenn stunda laxveiðar á sumrin. Göngubrúin er úr reipum og sveiflast undir fólki, svo að ekki er heiglum hent að fara yfir hana. Ekki fara þó neinar sögur af slysum á brúnni í 200 ára sögu hennar.

Næstu skref