9. Íslendingaslóðir – Universitätet

Borgarrölt
Larsbjørnsstræde 23, København

Larsbjørnsstræde 23

Næst förum við til hliðar til hægri inn í Larsbjörnsstræti, þar sem bjó hægra megin á nr. 23 brautryðjandi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, Baldvin Einarsson, og samdi hér síðari hefti Ármanns á alþingi. Hann fórst hér af brunasárum, sem hann hlaut í svefni í árslok 1832. Á undan honum bjó í húsinu Grímur Jónsson amtmaður

Við sveigjum til vinstri í Stúdíustræti og komum að Biskupstorgi fyrir framan Frúarkirkju. Í lúterskum sið hafa öll íslenzk biskupsefni, sem fengu vígslu í Kaupmannahöfn, verið vígð í Frúarkirkju og setið að veizlu í Biskupsgarði, sem er hér á horninu andspænis kirkjunni.

Universitätet, København

Universitätet

Til vinstri er Kaupmanna-hafnarháskóli, sem var háskóli Íslendinga allt frá miðri 16. öld og þangað til Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Þennan skóla sóttu margir kunnustu Íslendingar á síðustu öldum og það var dvöl þeirra þar, sem gerði Kaupmannahöfn að höfuðborg Íslands og mesta menntasetri landsins.

Við göngum Norðurgötu meðfram gömlum byggingum háskólans, þar á meðal stúdentamötuneytinu Kannibalen, sem Íslendingar kölluðu alltaf Klaustur, af því að það var upprunalega stofnað í Ágústínusarklaustri við Heilagsandakirkju 1569, þegar munkarnir höfðu verið reknir þaðan brott.

Árið 1579 fengu Íslendingar forgang að frímáltíðum Klausturs. Hélzt svo, unz mötuneytið var lagt niður 1736 og farið að afhenda stúdentum matarfé í staðinn. Kölluðu Íslendingar það síðan “að fá Klaustur”. Hér var Oddur Einarsson, síðar biskup, “prófastur” eða borðhaldsstjóri

Næstu skref