9. Isole – Torcello

Borgarrölt

Torcello

Santa Maria Assunta, Torcello, Feneyjar

Santa Maria Assunta, Torcello

Héðan er stutt leið með áætlunarbátnum til frægrar eyðieyjar, Torcello.

Einu sinni var þetta þéttbýl eyja með 20.000 íbúum, en nú eru þeir ekki nema um það bil 50. Eyjan er að mestu leyti í eyði, fræg fyrir eina elztu kirkju Feneyja, Santa Maria dell’Assunta, frá 1008. Við hlið hennar er önnur minni kirkja, Santa Fosca, grísk krosskirkja í rómönskum stíl frá 11. og 12. öld, með grönnum súlnagöngum að innan sem utan.

Santa Maria Assunta

Um stundarfjórðungs gönguleið er frá bátastöðinni eftir skurðbakka til kirknanna tveggja. Við hlið þeirra er veitingahúsið Locanda Cipriani, sem er bezta veitingahús Feneyjasvæðisins. Kjörið er að sameina skoðun fornminja hádegisverði á veitingahúsinu og láta hraðbát hússins sækja sig inn í borgina.

Við skoðum nánar meginkirkjuna.

Kirkjan er í býzönskum stíl, í núverandi mynd frá 1008, en að stofni til frá 639, ein elzta kirkja Feneyja. Framan við hana eru léttbyggðar súlnasvalir og að kórbaki er hallur kirkjuturn.
Glæsilegar og upprunalegar steinfellumyndir þekja vesturvegg og hluta kórbaks, einstæðar í sinni röð, mun fjörlegri en slíkar myndir voru venjulega á þessum öldum. Hinar elztu eru frá 7. öld, en flestar frá 12. öld. Á vesturvegg sýna myndirnar dómsdag og í kórbaki sýna þær meðal annars guðsmóður með jesúbarnið framan við gullinn bakgrunn.

Framan við róðubríkina er predikunarstóll, sem að hluta er frá 7. öld. Sjálf róðubríkin er úr vandlega myndskornum marmara.

Við ljúkum hér ferðinni um eyjar Feneyjalóns og tökum næsta bát inn í staðinn. Næst förum við á bílaleigubíl frá Feneyjum til Padova, Vicenza og Verona, samtals 122 km aðra leiðina og 236 km fram og til baka. Fyrsti áfanginn, til Padova, er 42 km.

Bílferðin