Fontana Trevi
Frá Piazza Barberini förum við niður verzlanagötuna Via del Tritone, beygjum til vinstri eftir Via della Stamperia og göngum á hljóðið frá Trevi-brunni, sameinaðan vatnsnið og ferðamannanið. Við brunninn stendur fólk og kastar peningum yfir öxlina á sér í brunninn til að tryggja endurkomu sína til Rómar. En Anita Ekberg er orðin ellimóð og filmstjörnur eru hættar að baða sig í brunninum, enda er löggan vel á verði.
Fontana Trevi er dæmi um ofhlæði lokaskeiðs hlaðstíls. Nicolà Salvi hannaði brunninn 1762. Hann er úr skjannahvítum marmara og sýnir sjávarguðinn Neptúnus með tveimur sjávargoðum og reiðskjótum þeirra. Yfir brunninum er hvít marmarahliðin á Palazzo Poli og myndar bakgrunn við hæfi brunnsins.