9. Miðbær vestri – Santa Maria della Pace

Borgarrölt

Santa Maria della Pace

Santa Maria della Pace, Roma

Santa Maria della Pace

Við beygjum til hægri inn í Vicolo della Volpe. Við komum þar strax að klaustri við kirkjuna Santa Maria della Pace. Þar er tveggja hæða klausturgarður eftir Bramante frá 1500-1504 með gullinsniði í súlnaskipan. Á neðri hæð eru jónískar veggsúlur á bogastoðum, líkt því sem er á Colosseum. Á efri hæð eru kórinþusúlur með grönnum deilisúlum á milli.

Við göngum nokkur skref áfram eftir Vicolo
della Volpe, förum fyrir afturenda Santa Maria della Pace og beygjum meðfram henni til hægri til að komast framan að þessari litlu og vel földu kirkju.

Pietro da Cortona reisti 1656-1657 þessa framhlið í hlaðstíl á eldri kirkju og hannaði raunar líka friðsælt kirkjutorgið, þar sem gert var ráð fyrir fyrsta einstefnuakstri sögunnar, á hestvögnum, sem fluttu aðalsfólk til kirkju. Hann notaði æðóttan kalkstein í framhliðina, eins og Rómverjar gerðu að fornu. Súlnarið framhliðarinnar er hálfhringlaga með íhvolfum vængjum. Þessi form hafa víða verið stæld, svo sem í hliðardyraveröndum Pálskirkju í London. Gaflaðið er í senn þríhyrnt og sveigt.

Að innan er kirkjan frá 15. öld, með stuttu kirkjuskipi og átthyrndu miðhvolfi. Í fyrstu kapellunni hægra megin eru Síbyllur Rafaels frá 1514. Í fyrstu kapellunni vinstra megin er freska eftir Peruzzi. Yfir altari eftir Carlo Maderno er fræg mynd af Madonna della Pace.

Næstu skref