5th Avenue
Við erum komin í þungamiðju hins fína verzlunarhverfis Manhattan. Hér við 5th Avenue rekur hver tízkubúðin aðra, Cartier, Botticelli, Lapidus og Gucci.
Einmana bókabúð er þó vinstra megin, milli 52nd of 53rd Streets. Það er Dalton. Síðast, þegar við vorum þar, var Johnny Cash að árita nýju bókina sína um Pál postula. Uppi yfir búðinni gnæfir turn, sem hefur heimilisfangið 5th Ave
nue 666. Þar uppi er ágætur útsýnisbar, sem heitir Top of the Sixes.
Síðan halda tízkubúðirnar áfram. Við sjáum nöfnin Elizabeth Arden, Godiva og náum hámarki í Tiffany og Bergdorf Goodman á horninu, þar sem 5th Avenue mætir 57th Street.
Trump Tower
Við hliðina á Tiffany hefur nýlega verið reistur sérkennilegur turn með skemmtilega gróðursælu stallaflúri á neðstu hæðum. Það er skýjakljúfurinn Trump Tower með sex hæða meginsal dýrra tízkuverzlana neðst og gífurlega dýrum lúxusíbúðum þar fyrir ofan.