95 ára afturför

Greinar

Þegar forveri DV byrjaði að koma út fyrir 95 árum, var sagt frá komu og brottför þekktra borgara, sem voru í utanferðum. Nánast annan hvern dag skýrði Vísir frá því, hverjir voru svo merkir, að þeir voru í utanferðum. Þetta þótti sjálfsagt í gamla daga. Enginn Stóri Bróðir amaðist við skrifunum.

Forveri DV hóf líka göngu sína með því að segja frá útsvari allra greiðenda í Reykjavík. Engum datt í hug, að eitthvað væri athugavert við slík skrif. Þau voru talinn eðlilegur hluti þjóðfélags, sem var bjartsýnt og opið fyrir tæpri öld, þegar Stóri Bróðir var ekki enn farinn að kúga þjóðina.

Í fyrstu eintöku blaðsins voru auglýsingar matvöruverzlana um áfengi. Á tímum stiftamtmanns og konungkjörinna þingmanna var hvorki amast við því, að brennivín væri við hliðina á mjólkinni í venjulegum búðum, né var amast við því, að fjölmiðlar birtu auglýsingar á þessari vinsælu vörutegund.

Nú er öldin önnur. Stóri Bróðir hélt innreið sína, eyðilagði stríðsgróða í tvígang, magnaði kreppuna miklu og framlengdi hana fram að viðreisnarstjórn. Stóri Bróðir fór að ákveða allt fyrir ósjálfbjarga almenning, sem ekki var talinn hafa vit fyrir sér. Nú á tímum stjórnar Stóri Bróðir þjóðinni.

Nú má ekki birta skrár yfir komu og brottför farþega í flugi, sennilega af ímynduðum öryggisástæðum. Nú má ekki birta heilar útsvarsskrár, af því að stofnun, sem heitir Persónuvernd hefur ákveðið, að það henti þjóðinni bezt, að raunveruleikinn sjáist ekki og að þjóðin viti sem minnst.

Auðvitað má hvorki selja áfengi í matvörubúðum, né auglýsa það í fjölmiðlum. Hálf þjóðin er orðin svo sefjuð af möru Stóra bróður, að hún trúir því beinlínis, að ljótt sé að birta nöfn og myndir af fólki. Í stað stiftamtmanns og konungsfulltrúa er kominn forseti og alþingismenn.

Við höfum ekki gengið götuna fram eftir vegi í þau 95 ár, sem Vísir og arftakar hans hafa sagt þjóðinni fréttir. Tuttugasta öldin hófst í frjálslyndi, sem var ættuð frá Danmörku, og henni lauk í rammíslenzkum sósíalfasisma og félagslegum rétttrúnaði, sem tröllríður þjóðinni núna.

Hér ríkti frelsi fyrir einni öld, en nú ríkir óskapnaður, Stóra bróður. Stofnanir og kerfi, blýantsnagarar og reglugerðir hafa komið í stað eldra gegnsæis og lýðræðis.

DV