96% réttleysi á hálendinu

Greinar

Sveitarfélög, sem liggja að hálendinu, eiga ekki að framlengjast upp á miðja jökla, enda ná sveitarfélög við sjávarsíðuna ekki út að landhelgismörkum. Sveitarfélög ná heldur ekki langt niður í jörðina eða upp í loftið, því að fljótlega tekur við umsjónarsvæði ríkisins.

Frumvarp félagsráðherra felur í sér fráhvarf frá áður gildandi reglu um, að ríkið sjái um lögsögu utan byggða, það er að segja út á haf, upp í loft og niður í jörð. Fyrir hefðarrofi þurfa að vera brýnar forsendur, en slíku er alls ekki til að dreifa í þessu tilviki.

Þar á ofan veldur frumvarpið misrétti. Sveitarfélögum með samtals 4% af íbúafjölda landsins er falið að stýra 40% af flatarmáli landsins. Þéttbýlið við sjávarsíðuna umhverfis landið nýtur ekki sama réttar og fær engan sérrétt út á haf til að bæta sér upp mismununina.

Raunar má segja, að frumvarpið sé óbeint framhald þeirrar stefnu að taka hluti úr almannaeigu og gefa þá litlum hópi. Þannig voru auðlindir sjávar gefnar útgerðarfélögum og þannig á nú að gefa bændasamfélögum miðhálendið. Rányrkjugengin eru verðlaunuð.

Engin sérstök ástæða er til að afhenda útgerðarmönnum auðlindir hafsins frekar en einhverjum öðrum, til dæmis sjómönnum, fiskvinnslufólki, fiskvinnslustöðvum, sveitarfélögum eða stjórnmálaflokkum. Útvegsmenn eiga ekkert sérstakt tilkall umfram aðra.

Rányrkjureynsla á síður en svo að veita rétt til stjórnunar á rányrkju, hvorki úti á hafi né uppi á söndum. Þess vegna eiga hvorki útgerðarfyrirtæki, bændasamfélög né aðrir hagsmunahópar að stjórna þeim svæðum lögsögunnar, sem eru langt utan byggðra bóla.

Því miður hafa stjórnarflokka-þingmenn sjávarsíðunnar flestir hverjir ekki sýnt neinn áhuga á að koma í veg fyrir misréttið í frumvarpi bóndans frá rótum Auðkúluheiðar. Þeir hafa ekki nennt að kynna sér efni þessa máls frekar en annarra flókinna þingmála.

Þetta er angi af því, að stjórnarflokka-þingmenn utan Reykjavíkur og Reykjaness eru í fullri vinnu við að gæta meintra sérhagsmuna í héraði, en þingmenn þessara tveggja kjördæma eru í fullri vinnu við að hvíla sig eða að frílysta sig á fjölþjóðlegum nefndafundum.

Það skiptir máli, hver stýrir miðhálendinu, því að sá aðili stýrir líka skipulagi þess. Hann getur til dæmis hagað skipulagi á þann veg, að tiltekið svæði skuli nýtast til beitar fremur en til orkuvera og orkuveitna eða til náttúruverndar og náttúruskoðunar.

Þannig munu ráða ferðinni skammtímahagsmunir þeirra 4% þjóðarinnar, sem búa í þeim sveitarfélögum sauðfjárræktar, er liggja að hálendinu. Gegn þessum þröngu hagsmunum munu almannahagsmunir mega sér tiltölulega lítils, ef frumvarpið nær fram að ganga.

Fyrir utan yfirgang sérhagsmuna býður frumvarpið upp á, að mismunandi sjónarmið ráði ferðinni, þegar mörg sveitarfélög ráða litlum og samhliða landræmum inn á sanda og jökla. Það, sem eitt sveitarfélagið vill, getur stangast á við það, sem nágrannafélögin vilja.

Þannig kunna allir að vilja byggja ferðamiðstöðvar á sinni ræmu, svo að úr verði kraðak stöðva á borð við þá, sem ætlunin er að reisa á Hveravöllum í skjóli stjórnenda Auðkúluheiðar. Eða að allir nema einn vilji láta virkja eða þá að allir nema einn vilji láta friða.

Bezt er, að um hagsmuni á miðhálendinu sé fjallað á einum stað. Þetta eru ótvíræðir almannahagsmunir og eiga því heima á vegum stjórnsýslu af hálfu ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV