Þögn og myrkur í sveitinni

Punktar

Verlyn Klinkenborg skrifar í morgun í New York Times um dvöl sína í kofa í norðanverðu Finnlandi. Þar var alger þögn. Tók hana viku að læra að heyra lækjarnið og regnnið. Var svo vön borginni, þar sem eyrað reynir að útiloka umhverfishávaða, svo sem umferðarnið. Eyrað var alveg óvant að reyna að grípa hávaða í umhverfinu. Ég er vanur hvoru tveggja. Þarf ekki kortér til að heyra niðinn í bæjarlæknum, hljóðin í smáfuglum haustsins, regnið fallandi á laufi. Fyrir mér er ekki þögnin, heldur myrkrið, sem er munurinn á sveit og borg. Í sveitinni hjá mér sést ekkert ljós frá næsta bæ. Það er nefnilega enginn næsti bær.