Fyrirmunað að rökræða

Punktar

Stundum fæ ég tölvupóst með athugasemdum við blogg mitt. Ætla mætti að fólk talaði þar um staðreyndir málsins. Tefldi fram öðrum rökum gegn mínum og benti á nýjar staðreyndir, sem skipti máli. En svo er aldeilis ekki. Allur þorri athugasemdanna ræðir málsefnið ekki neitt. Í staðinn reiknar fólk út hugarfar mitt og hvernig ég hafi komizt að þessari niðurstöðu. “Hvaða hvatir eru bak við þetta”, spyr fólk. Að mati þessa fólks hafa rökstuddar skoðanir aðeins einhvern annarlegan tilgang. Slíkur póstur hefur dregið úr annars litlu áliti mínu á þjóðinni. Henni virðist fyrirmunað að rökræða.