Jón Kristinn Cortez fann stolinn bíl sinn aftur með hjálp veraldarvefsins. Þar eru margir boðnir og búnir að hjálpa öðrum, þegar löggan má ekki vera að. Vefurinn er mikilvægt tæki til samhjálpar framhjá yfirvöldum. Frægasta dæmið er Ivanna í New York, sem náði stolna farsímanum sínum með hjálp netverja. Lögreglan þvældist fyrir og raunar kerfið allt, en Ivanna fékk símann. Clay Shirky lýsir þessu í bókinni Here Comes Everybody. Kenning hans er, að veraldarvefurinn gefi fólki færi á að mynda félagstengsl á áður óþekktan hátt í nútímanum. Miðaldaþorpið hafi verið endurvakið á vefnum.