Þegar ég var háskólanemi í Berlín fyrir hálfri öld, var borgarmiðja á horni Kudamm og Joachimstaler Straße. Steinsnar frá Kempinski fínimannshótelinu, Gedächtnis-kirkju og Zoo-brautarstöð. Fyrir hundraðkall átum við baunasúpu á Aschinger með eins mörgum brauðsnúðum og við gátum borið frá deskinum. Nú er borgarmiðjan í gamla austurbænum, þar sem mætast Unter den Linden og Friedrichstraße. Engin stúdentastofa er þar í grennd og verðlag himinhátt. Rétt hjá er fínimannshótelið Adlon (400 evrur) og fínimanns-veitingastofan Fischers Fritz (100 evrur á mann). Allt í heiminum færist í rúmi og verði.