Framtíð
Risaeðla aðlagast
Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006
Blaðamennska er á miklum hraða inn í óræða framtíð netmiðla og annarra nýmiðla. Fréttastofur hefðbundinna fjölmiðla hafa verið holaðar að innan til að spara fé. Starfsfólk þeirra er þjálfað í störfum fyrir marga miðla í senn.
Jon Palfreman:
Ég vissi ekki árið 1992, að veraldarvefurinn mundi þróast í notendavænan miðil, sem tengdi allt mannkyn. Hann flytur slúður, viðskipti, menningu, fréttir. Slúður hefur eflst, allt frá gemsum yfir í vefsvæði, þar sem ungt fólk hangir.
Við getum litið á vefinn sem vanda og við getum litið á hann sem lausn á vanda, sem við hefðum hvort sem er staðið andspænis. Félagsvefir á borð við MySpace, Facebook og YouTube hafa ekki hefðbundin gildi siðareglna í blaðamennsku.
Vefurinn hefur magnað ótta í blaðamennsku, átt þátt í að draga burt auglýsingar, að magna þéttara eignarhald fjölmiðla, að draga úr notkun ungs fólks á hefðbundnum fjölmiðlum og að draga úr trausti fólks á fjölmiðlun.
En vefurinn kann að hafa komið í tæka tíð til að virkja kynslóðir, sem höfðu yfirgefið dagblöðin. Hvers vegna lesa þær ekki? Af því að hugarfar þeirra er annað en hinna eldri. Nýjar kynslóðir eru aldar upp í sjónmiðlum, svo sem tölvum, leikjum og kapalkerfum.
Annað hugarfar er ekki sama og heimskara hugarfar. Greindarvísitala hefur farið hækkandi. Þeir, sem hefðu fengið 115 stig árið 1956, fá nú 100 stig. Þetta hefur einkum gerst á óhlutlægum og sjónrænum sviðum greindar. Nýja fólkið er undir vefinn búið.
Fyrir vefinn fór sagnalist eftir þeirri tækni, sem notuð var. Fólk sagði sögur fyrir prent, útvarp eða sjónvarp. Vefurinn knýr þessa tækni til að sameinast í margmiðlun. Þetta ætti að gera blaðamennsku auðugri. Sagnalist endurnýjast í kjölfar tölvuleikja.
Kevin Cullen:
Víða fækkar áskrifendum og smáauglýsingar hverfa. Við kíkjum daglega á slúður Romenesko hjá Poynter til að sjá, hverjir hafa fengið starfslokasamninga eða hefur verið sagt upp. Ef þú lagar þig ekki að aðstæðum, muntu deyja út.
Chris Cobler:
Prentmiðlamenn þurfa að segja sögur í margs konar miðla. Til þess þurfa dagblöð að fjárfesta í hæfum blaðamönnum, að hafa næga hæfa starfskrafta og að þjálfa blaðamenn á nýjum sviðum, sem gera þá hæfa.
Samt eru flest fjölmiðlafyrirtæki að segja upp fólki. Hvað munu dagblöð þá bjóða fólki, sem notar vefinn? Aðeins 15% af efni dagblaða (meira á Íslandi) er eigin framleiðsla. Er þetta ekki vítahringur? Cobler óttast framtíð starfsgreinar, sem hann ann.
Með því að sameina prent og vef geta dagblöð frestað fundi sínum með manninum með ljáinn. En sá dagur mun koma, að dagblöð verða að flytja sig alveg yfir í nýtt viðskiptamynstur. Segja skilið við pappír og handvirka dreifingu.
Sem betur fer hafa dagblöð forskot í stafrænni öld. Þau framleiða gildi, staðbundið efni, sem lesendur fá ekki annars staðar. En tíminn er naumur. Blaðamenn þurfa að blogga, notendur þurfa að kjósa um efni og við þurfum að þjálfa fólk.
Vefsvæði dagblaða ná mestum árangri, ef mestur hluti efnisins er frumsaminn, ekki skóflað af síðum prentmiðilsins.
Þótt sum vefsvæði hafi fjórum til átta sinnum meiri lestur en prentmiðillinn, borga auglýsendur þar aðeins brot af greiðslum á prenti.
Dagblöð sinna lítið stjórn á breytingum, verja litlu fé til markaðsmála og nýjunga. Þau hafa ekki víðsýni til að sjá margvíslega möguleika vefsins. Þau setja ekki upp leitarmöguleika, ókeypis smáauglýsingar og setja ekki upp félagssvæði fyrir fólk.
Dagar einokunar eru horfnir. Menn þurfa að hugsa djarft. Dagblöð þurfa að venjast fríblöðum. Þau þurfa að venjast ókeypis upplýsingum. Þau verða fyrir rest að slátra prentmiðlinum til að koma sér fyrir á vefnum. Tekjur á vefnum munu magnast.
Robert C. Picard:
Framkvæmdastjórar reyna að þóknast hluthöfum. Fólk hefur minni áhuga á að verja tíma og fé í dagblöð. Fréttastofnanir hafa minnkað fjármagn fréttastofa, fækkað starfsfólki þeirra og minnkað útgáfumagn. Uppgjafarhljóð er í bransanum.
Samt er hagnaður fjölmiðla yfir meðaltali fyrirtækja. Áætlanir eru til skamms tíma og fela ekki í sér sýn langt fram á veg. Þau eru skammsýn, þótt 90% hlutafjárins sé í eigu þolinmóðs fjármagns lífeyrissjóða, fjárfestingarsjóða, trygginga og fjármálafélaga.
Ýmsar breytingar hjá fjölmiðlum hafa ekki breytt neikvæðri ímynd fjölmiðlunar hjá fjárfestum. Fjölmiðlar hafa einkennst af skaðlegum niðurskurði. Hann er raunar orðinn að staðlaðri og árvissri aðgerð. Þarna er um að ræða spá, sem rætist af sjálfri sér.
Menn búast við minni arði og meiri óvissu. Mikið af efni fjölmiðla kemur frá dreifiveitum og er fáanlegt annars staðar. Fólk er farið að finna, að efni fjölmiðla fæst frítt og tímalaust. Efni prentmiðla þarf að vera einstætt og mikilvægt, dreifingin fjölbreytt.
Hugmyndaflug og framtak skortir á dagblöðum. Þau þurfa að finna nýja tekjupósta. Þeim nægir ekki að halda hinum gömlu. Dagblöð þurfa sameiginlegt átak til að tryggja sér sjálfbæra framtíð. Annars versnar ástandið bara.
Michael Riley :
Dagblöð leita að torfundinni töfralausn, sem á að gera þeim kleift að greiða fyrir hágæða blaðamennsku á stafrænni öld. Hefðbundið tekjumynstur þeirra er komið í gjörgæslu.
Dagblöð þurfa að fylgjast með meginþróun fjölmiðlunar. Þau eru ekki lengur alvaldir hliðverðir frétta og upplýsinga. Allir, sem eiga tölvu, eru eigin útgefendur. Fréttir eru orðnar samtal, eru ekki lengur eintal. Valdið er hjá fólkinu og netinu, ekki hjá stofnun.
Vefurinn er mikilvægastur. Það er veigamesta breyting hugarfarsins. Við þurfum að snúa heimi okkar á hvolf. Byrja á að hugsa um vefinn og láta prentið koma á eftir. Verið ekki of hrædd við tilraunir, verið hugrökk. Sumar hugmyndir munu ganga upp, aðrar ekki.
Við verðum að lækka arðsemiskröfur okkar og fjárfesta mismuninn í ævintýri á vefnum. Það er djarft. En ef við hugsum um 20% sem topp á arðsemi, ekki sem botn, þá getum við keypt mikið af frelsi til að reisa sterka framtíð.
Smíðið sérhillur. Finnið tækifæri í hliðarsporum á þrengra sviði eða færið út kvíarnar. Komið upp myndbandaframleiðslu. Búið til vettvang, þar sem notendur geta komið saman og skipst á upplýsingum. Náið eignarhaldi á upplýsingum um nánasta umhverfi.
Óvinir dagblaða eru Google og Yahoo og Wiki og það, sem á eftir þeim kemur. Safnið því upplýsingum um samfélagið, hellið þeim í gagnabanka, setjið upp hraðar leitarvélar og verðið að bestu miðstöð upplýsinga um samfélag staðarins.
Prófið mismunandi tekjupósta. Til dæmis viðskipti á vefnum, þröngvarp auglýsinga á vefnum, leitarvélar tengdar auglýsingum og þjónustu. Látið það lifa, sem gengur vel og seljið það öðrum dagblöðum í öðrum samfélögum.
Of lengi hafa dagblöð litið á sig sem fjölmiðla, sem safni fréttum og upplýsingum. En stafræni heimurinn krefst þess, að við skilgreinum okkur að nýju, ekki sem fjölmiðla, heldur sem tæknifyrirtæki.
Geneva Overholser:
Gamalreyndir blaðamenn eru oft lítt meðvitaðir um gríðarlega möguleika stafrænu veraldarinnar. Þeir láta sér nægja að gera grín að leit alþýðunnar að skemmtun á vefnum. Á sama tíma er mynstur fjármála að hrynja í prentmiðlum.
Gamalreyndir blaðamenn ættu frekar að reyna fyrir sér á vefnum. Margir sjóðir gera þar góða hluti, t.d. Center for Public Integrity. Sumum fjölmiðlum hefur verið breytt í sjóði, sem ekki stefna að arði. Yfirfæra þarf gömul gildi frá prentmiðlunum.
Við þurfum mest á því að halda, að fagmennska, það er sannreynsla heimilda og fréttaöflun á vettvangi, flytjist yfir á vefinn, sbr. Public Insight Journalism. Við þurfum faglega blaðamennsku, sem bregst við hugmyndum fólks á vefnum.
Ulrik Haagerup:
1. Hver er staðan núna?
Ef þú finnur ekki hitann, hvers vegna þá breyta?
2. Hvert er markmiðið?
Mun staðan verða betri? Ef fólk tekur ekki þátt í framtíðarsýn okkar, hvers vegna þá breyta?
* Hættu aldrei að hugsa um morgundaginn.
* Stansaðu ekki, morgundagurinn kemur bráðum.
* Morgundagurinn verður betri en gærdagurinn.
* Gærdagurinn er farinn, gærdagurinn er farinn.
Fjölmiðlabylting er hafin á NorðurJótlandi. Fjölmiðlar bráðna saman. Blaðamenn, sem áður unnu við einn miðil, fá tækifæri til að segja sögur sínar í útvarpi, sjónvarpi, á vefnum, í farsíma, í fríblöðum og áskriftarblöðum. Fjölmiðlafyrirtæki fór alla leiðina.
Þetta gekk vel á tíu mánuðum. Þá hafði allt breyst. Selda blaðið hafði betri fókus. Fríblað var komið fyrir lestarfarþega. Við vorum með vinsælt 24 stunda fyrirsagnasjónvarp á kapalrásinni okkar. Fréttir þess voru meira notaðar en selda dagblaðsins.
Allir urðu að fá nýja þjálfun. Við höfðum þjálfun í gangi allan tímann. Prentmenn áttuðu sig á, að vefurinn og sjónvarpið skúbba. Þeir fóru að leggja meiri áherslu á: Hvers vegna? og Hvað svo? Samþætting felst ekki að útbúa allar sögur fyrir alla miðla.
Verkefnið var andlegt, að losa okkur úr viðjum þeirrar trúar, að vinna okkur fælist í að prenta blek á pappír og fá unga drengi til að koma honum í hús fólks fyrir klukkan sjö að morgni. Við erum upplýsingamiðill, ekki dagblað.
Kenning Darwins felst ekki í, að sá sigri, sem sé sterkastur eða hæfastur. Hann felst í, að sá sigrar, sem getur best lagað sig að nýjum aðstæðum. Það er aðlögunarhæfnin, sem ræður úrslitum í heimi upplýsinga.
Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé