Góður matur með stæl

Veitingar

Fiskfélagið er smart veitingahús í kjallara Zimsen-pakkhússins frá 1884, sem flutt var í Grófina. Matreiðslan er tízkuleg, en samt mjög fín. Saltfiskur með smokkfiski og spænskum chorizo-pylsum var frábær. Sítrónukrydduð skata með risarækjum og byggi var litlu síðri. Bragð hráefna kom vel í gegn, þrátt fyrir stæla, sem einkenna tízkumatreiðslu. Brauð var með þrenns konar góðri sultu, úr pipar, skyri og döðlum. Verð forrétta er um 2010 krónur, aðalrétta um 4490 krónur. Smakkseðlar dagsins kosta 7.900 krónur. Þríréttað kostar um 7680 krónur að kvöldi, í hádegi 3290 krónur. Fín viðbót við veitingaflóruna.