Í sveit norður í landi rakst ég á tveggja ára eintak af Húsum og híbýlum, sérstöku eldhúsblaði. Sýnd voru eldhús að hætti 2007, þegar rugl íslenzkra fjármála náði hámarki. Eldhúsið var orðið hluti af stofunni, raunar að meginþætti hennar. Aldrei virðist eldað í þessum eldhúsum, þar sést ekki matur utan sítrónur eða lime í skál. Fólk á að sitja kringum eldavélina, jafnvel vaskinn, og borða þar sitt teikavei. Þaðan getur það teygt sig í sérhannaðan skáp undir kampavínið. Firringin gekk svo langt á því ári, að í nokkrum húsum var hefðbundið eldhús í kjallaranum til daglegrar notkunar.