Fréttablaðið alls staðar frítt

Fjölmiðlun

Menn kvarta um, að frídreifing Fréttablaðsins hafi minnkað. Hún sé orðin forréttindi þéttbýlisins. Aðrir verði að kaupa blaðið. Þeir virðast ekki hafa tekið eftir, að blaðið er daglega fáanlegt frítt á vefnum. Þar eru ekki bara fréttirnar úr blaðinu, heldur allt blaðið með auglýsingum og öllu, síðu fyrir síðu í uppsetningu blaðsins. Þannig hefur vefútgáfan verið frá byrjun. Því hafa allir frían aðgang daglegan að Fréttablaðinu. Ég notaði hann mikið fyrir nokkrum árum, þegar ég var erlendis og var enn háður lestri dagblaða. Nú læt ég veffréttir nægja, en það er allt önnur saga um hnignun dagblaða.