Gott og vont fjölmiðlafrumvarp

Fjölmiðlun

Nýja fjölmiðlafrumvarpið er bæði vont og gott. Það er vont að því leyti, að það linar ekkert á forneskjulega þungum reglum um meiðyrði og einkalíf. Reglurnar lama frjálsa fjölmiðlun í umfjöllun um fjármál, því að þær flokka fjármál ranglega sem einkamál. Mikilvægara er að slaka þar á taumunum en að eltast við nafnlausar athugasemdir. Hins vegar er í sjálfu sér gott að losna við nafnleysingjana. Einhver verður að bera ábyrgð á hverju efni fyrir sig. Bloggarar bera ábyrgð á því, sem birtist á bloggsvæðum þeirra. Eðlilegt er, að vefmiðlar beri líka ábyrgð á nafnlausum athugasemdum við efni þeirra.