Fiskmarkaðurinn er beztur

Veitingar

Fiskmarkaðurinn í Ísafoldarhúsinu í Aðalstræti er orðinn bezta veitingahús landsins, betri en Friðrik V á Akureyri. Var þar í hádeginu í gær og fékk átta rétta syrpu fyrir 3.900 krónur á mann. Flestir réttirnir voru frábærir og allir góðir nema einn, skötuselur í blaðdeigi. Staðurinn byggist jöfnum höndum á ný-franskri og ný-japanskri matreiðslu. Frábært dæmi um blandstíl, fusion. Ég tek slíkan mat fram yfir ný-franskan eða ný-norrænan mat. Hann er frískandi og óvenjulegur í senn, kemur mér sífellt á óvart. Beztu kaup í hádegi eru fjórtán stykki af sushi og sashimi á 1.400 krónur, frábært verð.