Veljum ný orð

Framtíð
Veljum ný orð

Craig Cox :
Að finna nýtt fólk til að segja sögur.
Þegar við reynum að efla lýðræði leiðir það ekki endilega til meiri eða betri frétta. Að minnsta kosti ekki enn.

Blaðið hafði samband við konu, sem sat stöðugt í réttarsal og bloggaði. Það fékk að birta bloggið í blaðinu. Slíkt efni þarf að umgangast með varúð vegna ýmissa takmarkana þess. En það flytur um leið meira knýjandi lesefni inn í blaðið.

Blaðamennska almennra borgara hefur aukist í fjölmiðlum. Þegar við reynum þannig að efla lýðræði, leiðir það ekki endilega til meiri eða betri frétta. Að minnsta kosti ekki enn. Við reynum því að koma á föstum viðskiptum við reynda bloggara.

Ég hef lagt mikla vinnu í samskipti við bloggara, sem eru fullir af hugsjón og vilja um leið taka leiðsögn. En fæstir þeirra hafa úthald til langs tíma. Blaðamennska er líka fullt starf, ekki frístundavinna. Margir bloggarar eiga fullt í fangi.

Flestir borgarar í blaðamennsku hjá okkur leggja áherslu á álitsgjöf, prófíla og fundi hjá nefndum og ráðum borgarinnar. Allt er þetta efni, sem ekki kallar á fjölda heimilda. Samanlagt þýðir þetta, að aðild fólks að blaðinu er minni en við væntum.

Hægt er að senda slíka blaðamenn á sex vikna námskeið. Við þurfum líka að fara út í hverfin og skýra málið út fyrir fólki, sem lítur á fjölmiðla sem risavaxna valdshyggjuvél. Oft er skynsamlegt að flokka framlag fólks undir álit, ekki fréttir.

Eric Blom:
Vefurinn matar dagblaðið.
Við leggjum áherslu á gagnvirkni, einstaklinga og veraldarvefinn.

Við reynum að búa til brú milli vefsins og blaðsins. Við leggjum áherslu á gagnvirkni, einstaklinga og veraldarvefinn. Við vildum búa til samtal. Við vildum búa til blöndu blaðamennsku borgaranna annars vegar og blaðamennsku fagmanna hins vegar.

Með einum eða öðrum hætti eru það lesendur, sem hafa hugmyndir að flestum sögum á vefnum. Vefstjórinn birtir dálk í blaðinu um það, sem er að gerast á vefsvæðinu. Við segjum í blaðinu frá vinsælustu sögunum á vefnum. Allt kostar þetta mikla vinnu.

Fókushópar segja okkur, að ungir lesendur vilja meiri flæði í efni en aldraðir og vilja geta tekið þátt í þessu flæði.

Ellen Foley:
Lesendum boðin aðild að ferli ritstjórnar.
Lesendur, sem greiða kerfisbundið atkvæði eru hlynntir mikilvægum sögum.

Fjölmiðill þarf að gefa eftir stjórn á vefnum til að ná stjórn á lífi sínu. Ég reyni að viðurkenna atriði, sem ég ræð ekki við, hafa hugrekki til að breyta því, sem ég ræð við, og visku til að greina þar á milli. Það síðasta er erfiðast.

Við höfum ekki tíma til að bíða eftir, að atvinnugreinin lagi hrunið viðskiptamynstur. Hugrakkir blaðamenn verða að taka það, sem við vitum nú þegar, og koma því í gang á vefnum. Meðan viðskiptahliðin reynir að finna nýtt viðskiptamynstur.

Foley hefur unnið fyrir sjö dagblöð. Sums staðar hafa ritstjórar sagt skýrt, að þeir muni ekki starfa með vefnum, aðallega af hræðslu við minni lestur og af hræðslu við, að hefðbundin blaðamennska á prenti muni líða undir lok.

Við þurfum að finna leiðir til að búa til ódýr tæki og ódýra hæfni. Við prófuðum að láta lesendur á vefnum greiða atkvæði um, hvaða fréttir þeir vildu helst sjá á forsíðunni daginn eftir. Lesendur hafa tekið við sér. En við fáum lítinn stuðning viðskiptahliðar.

Næstum allar sögur af prenti fara á vefinn. Við reynum að rugga bátnum, því að starf okkar, lífeyrissjóður og heilsugæslufé byggist á, að nýjar leiðir finnist. Við tökum áhættu, prófum nýjar leiðir.

Dean Miller:
Siðaskráin nær til veraldarvefsins.
Siðaskráin gefur lesendum hugmyndir og orðaval til að nota í gagnrýni á blaðamennsku okkar. Það er aðferð til að greina sundur alvöru gagnrýnendur og einfalda hatursmenn.

Flestar siðaskrár eru ekki uppfærðar og stundum ekki finnanlegar. Við settum hana því á vefinn. Lögmaður okkar veinar og stéttarfélag blaðamanna veinar. Að öðru leyti er það í lagi. Borgararnir munu ekki fara í stríð við blaðið.

Þegar dagblað rýfur siðaskrá sína, mun leiðrétting á góðum stað koma að sama gagni og skaðanum nam, ef ekki betur. Við fundum enga neikvæða hlið á þessu. Siðaskráin gefur lesendum hugmyndir og orðaval til að nota í gagnrýni á blaðamennsku okkar.

Birting siðaskrár er aðferð til að greina sundur alvöru gagnrýnendur og einfalda hatursmenn. Mikilvægast er, að það hvetur til marktæks samtals milli blaðamanna og samfélags.

Judy Miller:
Ritstuldur fékk nýtt nafn á vefnum.
Nemendur í blaðamennsku sáu, að hálum tíma fylgir hált orðaval.

Endurnýting þarf ekki að vera þjófnaður. Hugtakið er hins vegar misnotað af útilegumönnum í villtu vestri vefsins. Þeim finnst í lagi að grípa efni annarra og setja það í eigið blogg. Fyrir mér er það ritstuldur.

Nemendur mínir skildu þetta, þegar grein þeirra í News21 var tekin upp í heilu lagi á Buzzle.com. Þar var sagt, að greinin væri unnin þar á ritstjórn. Buzzle sagði þetta ekki ritstuld, heldur “endurvinnslu” og “annars stigs heimild”. Hugtök eru hál.

Bloggari les grein, breytir nokkrum orðum, og birtir sem sína eigin. Hvað ætli margir geri slíkt án þess að upp komist?

Brent Walth:
Ég helt, að með viljastyrk einum gæti ég orðið kennarinn, sem leiddi nemendur burt frá ritstuldi.

Flestir kennarar sögðu mér, að ritstuldur væri útbreiddur. En mér brá, þegar ég varð í tvígang var við hann. Ég ræddi við nemendur um “ekta” og fékk innantóm augu. Þeir skildu alls ekki ritstuld, ekki einu sinni eftir að ég hafði útskýrt hann.

Ef þú setur nafn þitt við efni, er tilgangurinn að staðsetja ábyrgð. Það segir lesandanum nafn þess, sem staðfestir, að eftirfarandi efni sé rétt, upprunalegt og ekta.

Ég fór á vefinn. Innan 30 mínútna hafði ég fundið sex kafla úr Wikipedia og tvo kafla úr kennslubókinni. Sumt var orðrétt eins, annað var lítillega breytt. Nemandinn varðist hraustlega og neitaði að viðurkenna neina sök. Hún sýndi alls enga iðrun.

Það kom í ljós, að þetta var algengt. Kennarar fá vænisýki og gruna saklausa nemendur. En hinir seku vekja á sér athygli. Þeir sýna lítinn áhuga á vinnu og lagast ekki við áminningu. Þeir nefna heimildirnar og það er auðvelt að rekja svindl þeirra.

Margaret Engel:
Ritstuldur í bókaútgáfu.
Dagblöð eru full af fréttum um fólk, sem leynir glæpum sínum, en þau þögðu um þennan glæp.

Okkur kom á óvart, hversu blindir menn eru á ritstuld í bókaútgáfu. Við töluðum við okkar útgefanda, samband var haft við þjófinn, sem reif bara kjaft. Við fórum til New York að skýra málið fyrir lögmanni. Hann sagði ekki taka því að elta málið uppi.

Að lokum fékkst hann til að senda bréf. Í sáttaumleitunum kröfðumst við þess, að þjófnaðurinn yrði viðurkenndur skriflega. Fá dæmi eru um slíka kröfu. Omerta bókaútgefenda gerir þjófum kleift að halda uppteknum hætti.

Eftir mikið harðfylgi í marga mánuði höfðum við sigur. Við sendum viðurkenninguna til hundruða fjölmiðla, en ekki einn einasti birti frétt af henni. Öllum var sama.

Vandi af þessu tagi magnast í blogginu, þar sem menn krækja, klippa og líma að vild. Ólíklegt er að margir fengju samviskubit yfir að vera staðnir að slíku. Fólkið tapar, af því að traust og ábyrgð hverfur. Ritstuldur rýfur trúnað milli höfundar og lesanda.

Bob Giles:
Menn hafa áhyggjur af hruni Knight Ridder dagblaðanna og yfirtöku Wall Street risafyrirtækja á fjölmiðlum. Krafan um mikinn arð stríðir gegn sögulegu hlutverki prentmiðla. Dagblöðin brugðust mánuðina fyrir upphaf stríðsins gegn Írak.

Nieman Reports notar eMprint forskriftir til að búa til kennslubækur úr greinum um ýmis efni til að hlaða niður og lesa í aðgengilegu formi.

Watson Sims:
Ritstjórar hafa hvað eftir annað orðið að rísa gegn kröfum auglýsingadeilda. Þeir hafa sagt af sér vegna niðurskurðar. Aðrir tóku þátt í aftökunni og fengu hlutabréf í hækkandi verðgildi. Auglýsingar eru komnar á forsíðu og leiðarar að hverfa.

Árið 1977 lásu 77% Bandaríkjamanna dagblöð og árið 2005 voru þeir 50%. “Who Killed the Newspaper” spurði Economist. Það voru nýir eigendur. Spurningin er ekki, hvort þau séu beinlínis dauð, heldur hvort þau sæti óraunhæfum kröfum um arðsemi.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé