Vilja borga pínulítið

Fjölmiðlun

Fjölþjóðleg skoðanakönnun leiðir í ljós, að fólk hafnar ekki alveg að greiða fyrir fréttir á vefnum. Sættir sig við að borga 400 til 900 krónur á mánuði, misjafnt eftir löndum. Lágar tölur miðað við áskriftir blaða og sjónvarps, en tölur samt. Rupert Murdoch fjölmiðlagreifi hefur lengi reynt að koma upp greiðslum fyrir vefmiðla, en ekki haft erindi sem erfiði. Auglýsingatekjur á vefnum eru undir væntingum og því líta útgefendur hýru auga til áskrifta. Murdoch segir: “Það eru ekki til nógu miklar auglýsingar í heiminum til að láta vefmiðla borga sig.” Leitin að rekstrarumhverfi vefmiðla heldur áfram.