Framtíð
Framtíð dagblaða
Hér er farið yfir skoðanir erlendra sérfræðinga á framtíð dagblaða. Þær komu fram árin 2006-2007, aðallega á málþingum Newspaper Association of America og World Association of Newspapers.
Dagblöð eru framtíðin. Þau færa okkur það besta í blaðamennsku. Dagblöðin þurfa að giftast hinu besta á vefnum og leiða þróunina. Ný viðskiptamynstur munu koma í ljós. Nú er fínt færi á að gerast blaðamaður og taka þátt í að endurskapa starfið. (M. J. Tenore)
Aldrei hefur verið betra að vera frumherji í dagblaðaútgáfu en nú. Við erum í umrótatíma eins og var 1950, þegar sjónvarpið kom. Nú er það internetið og félagsleg miðlun þess. Og dagblöðin hafa loksins fattað, að fólk borgar ekki fyrir innihald. (Paul Saffo)
Menn eru of svartsýnir á framtíð faglegrar dagblaðamennsku. Formið þarf að minnka í tabloid. Kannski ekki prenta þau. Eða gerast dreifingarfyrirtæki fyrir annan póst. Dagblöð veita lausnir í daglega lífinu. Og veita samfélagslega tilfinningu. (H. I. Finberg)
Árið 2007 voru fréttir ótrúlegri og meira spennandi en skáldskapur, þótt þær væru réttar. The Portugal Child, The Perugia Murder, The Deadly Teddy Bear, The Secret Donor, The Panamanian Canoeist. Allt gætu þetta verið titlar eftir le Carré. (Mark Lawson)
22 hugsuðir tjáðu sig um vanda dagblaða. Þeir sögðu þetta:
1. Dagblöð verða að breytast hraðar
2. Þau þurfa fjölbreyttara innihald og meira staðbundið innihald í fjölbreyttari tegundum miðlunar.
3. Breyta þarf skipulaginu og gera einstakar deildir sjálfstæðari. Blöðin þurfa að hugsa um sig sem vöru. (Þau eru þó meira en vara)
4. Hugsunarháttur á fréttastofum þarf að breytast yfir í sjónarhól margmiðlunar.
5. Blöðin þurfa að líta á sig sem staðbundið viðmót, glugga fólks að nánasta umhverfi þess.
6. Blöðin þurfa að taka upp fleiri viðmiðanir um árangur, vöxt, hagnað, útbreiðslu og dreifingu.
Wall Street telur dagblöðin vera dauð. En þau hafa möguleika umfram aðra í nýjum tíma. Þau hafa staðsetningu og innihald. Prent og dreifing deyr, en blað lifir áfram. Dagblöð þurfa að byggja upp vörumerki sitt en bjóða út prentun og dreifingu. (P. Ginocchio)
Nú er paník í gangi. Mál munu hafa róast árið 2018. Prentun og dreifing eru úrelt. Auglýsendur þurfa aðstoð, ekki pláss. Notandinn er við stjórnvölinn. Dagblað þarf að búa til samfélag. Kannski eiga þau ekki að vera hlutafélög, heldur sjóðir. (Howard Finberg)
Við þurfum ekki að bjarga dagblöðunum. Við þurfum að koma þeim yfir stafræna múrinn. Auglýsingatekjur koma á vefnum, en það verða öðru vísi tekjur, kaupendur að leita að seljendum. Dagblöðin munu skipta um ham. (Jay Rosen)
Leikreglur hafa breyst. Eru ekki lengur dagblöðum í hag. Lóðrétt fyrirtæki lifa, lárétt deyja. Blöð þurfa að finna sér lóðrétt verkefni, t.d. TripAdvisor. Nálægð skiptir máli, ekki heimasíða. Of lítið er hugsað um pökkun. Lærið af American Idol. (J. F. Rayport)
Ekki er hægt að skilja sundur gamla og nýja miðla á dagblaði. Dagsgamlar fréttir eru úreltar. Fréttamenn vinna fyrir alla miðla í senn, en hver miðill hefur sinn ritstjóra eða framleiðanda. Allir þurfa að kunna allt, þótt þeir þurfi sjaldan að gera það. (L. J. Haile)
Nokkrir byrja að blogga saman um eitt mál. Fljótlega vex bloggið upp í stórveldi. Virkja þarf hugmyndaríkt fólk. Blaðamenn fari af sjálfstýringunni. Fréttir eiga ekki að vera einangraðar, heldur samfelldur ferill. Sleppið fyrirsjáanlegum fréttum. (J. Schaffer)
Fréttir og auglýsingar fara ekki lengur saman. Staðbundin mál ganga ekki á vef, meira þarf til að ná árangri í víðum miðli. Fjárfestar kæra sig ekki um nýjungar. Stórblöð munu rúlla upp markaðinum, samræma viðmótið á einum stað, gerast lóðrétt. (Tom Mohr)
Lausn finnst ekki á vanda dagblaðanna. Stafrænar framfarir eru linnulausar. Hlutverk blaða er ekki að fara á vefinn og berjast þar við stóru kallana. Hlutverk þeirra er að gera heiminn og samfélagið betra. Það geta þau betur en nokkur annar. (A. Nachison)
Vandamál dagblaðanna er ekki tæknilegt, heldur menningarlegt. Nýtt samfélag krefst gagnvirkni. Árlega setur vefurinn allt á annan endann, sbr. Facebook 2007. Dagblöð eru og verða verðmæt vörumerki. Þau eru áfangastaður borgaranna. (Kyle Redinger)
Fartölvur, farsímar, staðsetningartæki, bíllyklar, greiðslukort munu sameinast. Áhrif fólks aukast og það hefur um nóg að velja. Kjarni dagblaða verður nánasta samfélag fólks. Blöð þurfa að fara að ná til ungs fólks og til lægri miðstétta. (Earl J. Wilkinson)
Margt af efni dagblaða hefur flust annað. Dreifing blaða er ótraust. Þau keppa ekki við New York Times. Þau eiga að skrifa um sitt svæði. Ég hef allan heiminn í farsímanum í vasa mínum. En ég veit ekki nóg um það, sem er að gerast í mínu eigin samfélagi. (M. McAdams)
Ungt fólk vill vera í sambandi hvert við annað samfellt. Tæki þess verða hluti persónuleika þess. Þess vegna skapar ungt fólk færi á sídreifingarkerfi frétta og skemmtunar. (Stig Eide Sivertsen)
Farið á bólakaf í farsímana. Þeir eru meira notaðir en tölvur. Þeir eru alltaf í sambandi. Þjónusta við þá fer ört vaxandi. Byrjaðu á textaskilaboðum og færðu þig svo upp á skaftið. Farsíminn er raunar mjög staðbundinn. (Peter Levitan)
Dagblöðin þurfa að verða félagslega meðvituð um samfélagið og verða hornsteinn þess. Hjálpa neytendum og auglýsendum. Hver aðili þarf sína sérstöku meðhöndlun. Hætt er við, að gamlar ritstjórnarreglur fjúki í þessu skipulagi. (Lou Fulton)
Hvað þurfa blöðin að gera til að þjóna samfélaginu? Fólk vill nærtækar fréttir. Fyrirtæki vilja nálgast fólk. Samfélagið þarf umræðu. Dagblöðin eru ekki dagblöð, heldur þjónusta. (Stephen T. Gray)
Dagblöð á vefnum eiga að vera samin af notendum, t.d. með einkunnagjöf. Þeir eiga að geta brotið blaðið um eftir eigin höfði. Dagblað þarf að vera ofurstaðbundið og persónugert. Dagblaðið er “kaupmaðurinn á horninu”. (Kane Cochran)
Fríblöð ná betur til unga fólksins. Það er meira virði að skipuleggja framtíð en að bjarga nútíma. Velta þarf skjótt upp nýjungum. Útgefendur þurfa að elta markaðinn, sem er orðinn stafrænn. Arðkröfur eru of háar i Bandaríkjunum, 12% er nóg. (Jim Chisholm)
Dagblöð mega ekki fæla fólk með verri þjónustu og hærra verði. Spennan um dagblöðin verður meiri á næsta áratug, en hún hefur verið á þessum. Haldið ykkur fast. (Miles E. Groves)
Blaðamennska verður að vera kjarni og sál dagblaðs. Það þarf að vera tilfinningavera. Það þarf alltaf að vera til taks. Það þarf að vera einstætt. Það þarf að vera létt og staðbundið. (Juan Giner & Juan Senor)
Þegar stafræn miðlun festir sig í sessi, vilja notendur geta treyst henni í sama mæli og þeir gátu áður í dagblöðunum. Samhjálp í filtrun og mælikvarðar á trausti munu hjálpa til við lausn vandans. (Craig Newmark)
Vörumerki dagblaðs er stærsta eign þess. Dagblað er stofnun, sem nýtur mikils álits. Traust fólks byggist á neti sérfræðinga, sem taldir eru skilja heiminn og geta skilið fréttir frá slúðri. Þetta gerir blöðin ólík öðrum aðilum að internetinu. (Flavio Ferrari)
Prentað mál kann að lifa áfram. Ekki er ástæða til að harma það, ef dagblöðin finna leiðir til nýs lífs. Dagblöðin mega ekki skilgreina sig sem fjölmiðil. Styrkur þeirra felst ekki í stjórn á innhaldi eða dreifingu. Það tekur ekki að reyna að verja slíkt. (Jeff Jarvis)
Fólk mun sækjast eftir dagblöðum, sem hægja ferðina á því og segir því, hvað sé mikilvægt, einkum staðbundið. Einnig eru dagblöðin flott iðnaðarhönnun. Þau þurfa ekki rafmagn, skjárinn tindrar ekki, þau krassa ekki og eru endurnýtanleg. (R. Watson)
Dagblöðin eru fyrsti fjölmiðillinn í almannanotkun. Ekkert bendir til, að markmið og fortíð dagblaðs nýtist ekki í framtíðinni. En fólk mun fá fleiri tegundir miðlunar, burtséð frá aðild eða fjarveru dagblaða. (Stephen Gray)
Dagblaðsfólk þarf að sjá tækifæri í stað ógna. Það þarf að hafa sköpunargáfu og öðlast þjálfun í verkum framtíðarinnar. Það þarf að trúa á framtíð miðilsins. Aldrei hafa verið meiri möguleikar í fjölmiðlun en einmitt núna. (Tomas Brunegård)
Dagblöðin munu lifa, en verkin verða önnur. Við megum ekki bara líta á blöð sem fréttir eða pappír. Við þurfum að nálgast fólk á nýjan hátt. Það er lykillinn að framtíðinni. (Rob Curly)
Gleymdu internetinu. Það er ekki óvinurinn. Það mun raunar bjarga dagblöðunum. Lesendur nota ekki dagblöð einfaldlega af því að þeim finnst þau vera leiðinleg. Miklar þjóðfélagsbreytingar eru að gerast. (Roger Black)
Best heppnuðu blöðin í framtíðinni verða þau, sem eftir internetið halda áfram að setja nýjungar í gang, ekki til að koma í stað dagblaða, heldur til að grípa tækifæri, sem við vitum ekki um núna. (Michael Raynor)
Það tekur mikinn tíma, orku og vinnu að sannfæra prentritstjóra um, að þeir séu hluti af 24/7 ferli, þar sem prentmiðillinn er aðeins einn af ýmsum miðlum. Framkvæmdastjórnin, útgáfustjórnin þurfa að koma þeim til hjálpar. (Mario Garcia)
Það verða ekki fyrirtæki, sem valda truflun dagblaða næsta áratug, heldur fólk, sem er skapandi og grípur tækifæri, sem breyta heiminum og heimsmarkaðinum. Fólk vinnur alls staðar að lausnum, innan og utan dagblaða. (Andrew Nachison)
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé