Ný matarbylting í Frans

Veitingar

Enn gerist allt í Frakklandi, sem máli skiptir í matargerð. Fyrst franska og fína eldhúsið, sem fór fyrir löngu um allan heim. Síðan komu 1973 samhliða Nýja eldhúsið og Eldhús jarðarinnar. Cuisine Nouvelle tók inn nútímann og Cuisine Terroir tók inn hráefni héraðsins. 30 árum á undan Cuisine Nordique, norrænu afbrigði. Jafnvel blandstíllinn, Cuisine Fusion var að mestu þróaður í Frakklandi. Þar reis 1999 nýr stíll í matargerðarlist, le Fooding, sem hafnar öllum eldri reglum. Í áratug hefur ársrit með veitingarýni um París predikað þessa stefnu. Það er Le Fooding, sem leysir Michelin af hólmi.