Jöklasalat er vinsælt á matstöðum, því að það er stökkt. Hins vegar er það bragðlaust. Verra er, að það verður brúnt í sárið, þegar það er sneitt og síðan látið liggja. Þannig er jöklasalat víða borið fram. Svo sem á Saffran í Glæsibæ. Mér finnst skemmt salat ólystugt, en unga fólkið lætur sig hafa það. Lætur líka selja sér pólitíkusa, sem eru skemmdir í kantinn. Toscana-þorskur dagsins á Saffran kostaði 1490 krónur, borinn fram með rófublöndu, paprikusósu og áðurnefndu jöklasalati. Fremur slappur réttur. Betri var bráðsterk, pakistönsk karrísúpa með kjúklingi, sem fylgdi fiski dagsins.