Hestaferðirnar afskrifaðar

Hestar

Sumarið er ónýtt. Hestarnir búnir að vera veikir í tvo mánuði og hafa ekki enn losnað við lungnabólguna. Ekki illa veikir, en þurfa að vera áfram í fríi. Búið er að blása af hestaferðir sumarsins. Bezt hefur mér liðið, þegar þrjár-fjórar vikur fara í langar ferðir á fjöllum. Í sumar verður alls ekkert slíkt. Sit bara á bæjarhólnum og horfi á hestana. Fer stundum inn og skrifa upp úr Sturlungu um hestaferðir á heiðum og vöðum að fornu. Held, að hestunum leiðist líka. Þeir eru hressastir á léttum úðadegi á ferðalagi. Eðli hesta er að hlaupa út um allar trissur, helzt þrjátíu kílómetra á dag.