Blaðamennska
Siðareglur
Karólínudómur
Siðareglur BÍ
Siðareglur Blaðamannafélags Íslands eru á vef félagsins. Þessar reglur eru að grunni til orðnar 40 ára gamlar og eru í endurskoðun. Einkum vantar í þær meiri áherslu á skyldur blaðamanna við sannleikann. Reglurnar eru í sex liðum.
Fyrsta grein fjallar um samstöðu manna. “Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu og skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.”
Önnur grein fjallar um ábyrgð manna og trúnað við heimildarmenn.
Þriðja grein fjallar mest um tillitssemi. “Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.”
Þar er líka fjallað um vandvirkni blaðamanna í vinnubrögðum: “Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum.”
Fjórða grein fjallar um nafnbirtingar. “Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar.” Hver maður er talinn saklaus þar til sekt er sönnuð.
Fimmta grein fjallar um ýmsan árekstur hagsmuna og um sannfæringu sem leiðarljós. Blaðamaður “gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli”.
Sjötta grein siðareglna Blaðamannafélagsins fjallar um kæruferlið. Fyrst skulu menn “leita leiðréttingar mála sinna hjá viðkomandi fjölmiðli”. Siðanefndin kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er.
Einnig eru til siðaskrár Fréttablaðsins og DV. Þær eru miklu ýtarlegri en siðareglur Blaðamannafélagsins, fjalla einnig um verklagsreglur af ýmsu tagi, sem reynslan hefur sýnt, að geti komið að gagni við störf á ritstjórn.
Siðaskrá DV eru eins og siðaskrá Fréttablaðsins, að frátöldu þessu:
DV er ágengur fréttamiðill. br />
Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Ritstjóri getur ákveðið í sérstökum tilvikum að vernda nafnleynd viðmælenda, sem talað er við í beinni ræðu, ef öryggi hans er talið ógnað með nafnbirtingu.
Blaðamenn DV kynna sig ávallt sem blaðamenn DV við fréttaöflun.
Skoðanir eru einkum birtar í fyrstu opnu blaðsins og stundum á næstsíðustu síðu þess.
Ritstjórar DV svara gagnrýni á blaðið.
Mál utan heimilis eru opinber. Fjármál og fyrirtæki eru opinber.
DV greiðir fastar og auglýstar upphæðir fyrir fréttaskot.
Starfsmenn og helztu aðstandendur eru ekki til umfjöllunar í blaðinu nema að sérstaklega gefnu tilefni.
Starfsmenn og helztu aðstandendur geta ekki unnið til verðlauna í leikjum á vegum blaðsins.
Starfsmenn ritstjórnar gæta þess í öllum sínum verkum að efla traust lesenda á blaðinu og starfsfólki þess.
DV hefur svo allt annan kafla um nafnbirtingar en Fréttablaðið:
DV birtir jafnan nöfn og myndir fólks, sem er í fréttum blaðsins, svo framarlega sem blaðið kemst yfir þessar upplýsingar.
Ef fréttin er stutt og höfuðpersóna hennar er aðeins ein, þarf ekki myndatexta.
Stundum er frestað birtingu nafna um tíma, einkum fólks, sem látizt hefur óvænt. Þetta gerir blaðið í samráði við aðra aðila, sem koma að málinu.
Undantekningar byggjast einkum á hagsmunum brotaþola. Ekki eru birt nöfn og myndir þolenda kynferðisbrota.
Ef fleiri en ein er höfuðpersóna fréttar, tengja myndatextar eða fyrirsagnir saman nöfn og myndir.
Slík frestun birtingar kemur síður til greina, ef hún gæti valdið óþægindum hjá aðstandendum annara, sem af komust í slysinu.
Ekki eru birt nöfn þolenda kynferðisbrota.
Karólínudómurinn
Dómur Evrópudómstólsins í Karólínumálinu 24. júní 2004 hefur vakið umræðu um rétt fólks til að vera látið í friði, sem er í stjórnarskrá Bandaríkjanna og í mannréttindaskrá Evrópu. Í báðum tilvikum er talað um frið fyrir stjórnvöldum.
Í Bandaríkjunum hefur komið upp umræða um, að láta þurfi kenninguna um réttinn til að fá að vera í friði ná til fjölmiðla eins og stjórnvalda. Sú umræðu hefur ekki leitt til neinna breytinga á skilningi Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Evrópuþingið samþykkti 1998 þingsályktun í kjölfar dauðaslyss Díönu prinsessu, þar sem hvatt er til þess, að áttunda grein mannréttindaskrár Evrópu verði ekki bara látin ná til friðar fyrir stjórnvöldum heldur einnig fyrir fjölmiðlum.
Evrópudómstóllinn tók þetta svo upp í Karólínudómi sínum 2004. Þar segir, að áttunda greinin nái til þess máls, er Karólína prinsessa af Mónakó kærði nokkur þýsk tímarit fyrir að taka og birta myndir af sér á ýmsum stöðum.
Evrópudómstóllinn benti einnig á, að myndir, sem birtast í æsifréttablöðum og tímaritum séu oft teknar í andrúmslofti stöðugs eineltis, sem framkalli sterka tilfinningu hjá viðkomandi fólki fyrir, að um innrás í einkalíf þess sé að ræða.
Einnig segir Evrópudómstóllinn, að birting myndanna hafi ekki gegnt neinu hlutverki almannahagsmuna, heldur hafi hún eingöngu miðað að því að svala forvitni ákveðins hóps lesenda um einkalíf prinsessunnar.
Ennfremur segir Evrópudómstóllinn, að Karólína prinsessa sé ekki opinber persóna. Hún hafi fæðst sem prinsessa, en ekki sóst eftir því hlutverki. Hún gegni ekki opinberu embætti í Mónakó, þótt hún komi oft fram fyrir hönd fjölskyldunnar.
Á þeim árum, sem liðin eru frá Karólínudómi Evrópudómstólsins hefur ekki orðið vart við nein áhrif hans. Þýsk tímarit birta áfram myndir af frægðarfólki og frekari kærur af þessu tagi hafa ekki rekið á fjörur dómstólsins til þessa dags.
Hins vegar hafa ýmsir haldið fram, að dómstóllinn hafi misstigið sig í málinu. Stjórnarskrárákvæði um réttinn til að fá að vera í friði vísi aðeins til að fá að vera í friði fyrir stjórnvöldum. Svo hafi ætíð verið í vestrænum stjórnarskrám.
Því er haldið fram, að dómurinn opni fyrir alls konar kærur milli borgara í vestrænu þjóðfélagi í stað þess að Evrópudómstólnum hafi verið ætlað það hlutverk að fjalla um klögumál almennings gagnvart of aðgangshörðum stjórnvöldum.
Athyglisverð er niðurstaða þýska stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe í þessu sama Karólínumáli árið 1999. Þar er fjallað um stöðu þeirra tímarita, sem fyrst og fremst eru að skemmta fólki og fjalla um frægðarpersónur af ýmsu tagi.
Stjórnlagadómstóllinn sagði, að prinsessan í Mónakó sé opinber persóna og geti ekki kvartað yfir athygli fjölmiðla. Tilgangur þeirra væri að segja fréttir, svala forvitni fólks, meðal annars um persónur. Fjölmiðlun sé oft um persónur.
Dómstóllinn sagði, að ekki væri hægt að gera greinarmun á virðulegri fjölmiðlun og persónulegri fjölmiðlun. Hann sagði, að prentfrelsi væri æðra einkalífsrétti. Heimilt hafi verið að taka og birta myndir af Karólínu prinsessu á almannafæri.
“Ekki er hægt að neita, að hreinar skemmtifréttir hafa hlutverk í skoðanamyndun. Annars væri maður að gera ráð fyrir, að þær þjónuðu aðeins skemmtun, slökun, lífsflótta og dreifingu hugans.”
“Skemmtifréttir geta líka sýnt mynd af veruleika og teflt fram umræðuefnum, sem leiða til viðbragða notenda og hafa áhrif á lífssýn þeirra, á mynstur gilda þeirra og hegðunar.”
“Þannig hafa skemmtifréttir mikilvæg félagslegt hlutverk. Þegar þær eru skoðaðar í ljósi varna prentfrelsis, er ekki hægt að telja þær smáar eða lítils virði. Því falla þær undir almenn mannréttindi.”
“Sama er að segja um fréttir af persónum. Þær eru mikilvæg aðferð í blaðamennsku við að draga að athygli. Oft eru þær það, sem fyrst vekur athygli á vandamáli og örvar óskir um staðreyndir.”
“Þar að auki býr frægðarfólk yfir siðferði og lífsstíl, sem hefur áhrif á aðra, annað hvort til eftirbreytni eða ekki. Það verður að skurðpunktum, þar sem kristallast gott og vont fordæmi. Því hafa fjölmiðlar áhuga á brokkgengu lífi frægðarfólks.”
Himinn og haf er milli sjónarmiða þýska stjórnlagadómstólsins og Evrópudómstólsins. Ekki verður séð annað, en að þau atriði, sem koma fram í Karólínumálinu, muni áfram verða til umræðu. Hér verður ekki spáð um endanlega niðurstöðu málsins.
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé