Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari alþingiskosninganna. Hann jók fylgi sitt gífurlega og endurheimti hina hefðbundnu stöðu, sem hann hafði fyrir kosningarnar í fyrra.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hins vegar þessum kosningum. Honum tókst aðeins að vinna upp fjórðung af hruninu í fyrra, þótt hann hafi síðan getað leikið sér í stjórnarandstöðu.
Niðurstaða kosninganna er krafa um vinstri stjórn undir forustu Framsóknarflokksins og með auknu frumkvæði hans. Viðræður um myndun slíkrar stjórnar munu hefjast strax.
Enginn vafi er á, að Ólafur Jóhannesson á umtalsverðan persónuþátt í þessum sigri. Annaðhvort hann eða þó frekar flokksformaðurinn, Steingrímur Hermannsson, verður nú forsætisráðherra.
Mörgum kemur á óvart hinn lélegi endasprettur Sjálfstæðisflokksins. Hann er verulegt áfall fyrir Geir Hallgrímsson, sem hefur nú tapað tvennum alþingiskosningum í röð.
Stjórnarandstaðan hefur með furðulegum hætti náð að glopra niður þeirri óskastöðu, sem hún hafði í haust, þegar vinstri stjórnin var að gliðna í sundur.
Mun nú mörgum sjálfstæðismanninum þykja tímabært að skipta um forustu í flokknum og hefja til vegs yngri menn, sem ekki hafa flækzt inn í klíkumál flokksins.
Alþýðuflokkurinn tapaði mestu, en má þó sæmilega við úrslitin una. Hann heldur enn meirihlutanum af fylgisaukningunni frá í fyrra. Sumt lausafylgið heldur enn tryggð við hann.
Alþýðubandalagið kom á óvart með því að tapa næstum því eins miklu og Alþýðuflokkurinn. En tapið var þú ekki meira en við mátti búast hjá flokki, sem setið hefur í ríkisstjórn.
Athyglisvert er, að úrslit kosninganna eru nokkurn veginn nákvæmlega hin sömu og árið 1949, fyrir réttum þrjátíu árum, ef atkvæði Haukdals og Sólness eru lögð við Sjálfstæðisflokkinn.
Frávikin á þessum þrjátíu árum eru um og innan við 1% á flokk. Það minnir á þá kosningaspá leiðara Dagblaðsins á þriðjudaginn, að hefðbundið jafnvægi mundi nú aftur komast á.
Skoðanakönnun Dagblaðsins viku fyrir kosningar sýndi mikla tilfærslu fylgis frá Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Könnunin vanmat aukningu Framsóknarflokksins og ofmat aukningu Sjálfstæðisflokksins. Í heild var skekkjan þó ekki meiri en 3% að meðaltali á hvern hinna fjögurra flokka.
Eins og venjulega var könnun Dagblaðsins nákvæmari en hliðstæð könnun Vísis, sem hafði að meðaltali 4% skekkju á hvern hinna fjögurra flokka. Enda var aðferðafræðin misjöfn.
Hinn mikli sigur Framsóknarflokksins aflagar mjög atkvæðafjölda að baki hvers þingmanns. Framsóknarflokkurinn fær nokkru fleiri þingmenn en atkvæðatala hans gefur tilefni til.
Styrkur flokksins á þingi verður því enn meiri en styrkur hans meðal kjósenda. Það mun sennilega magna kröfur manna um breytt kosningalög, er gefi kjósendum jafnari rétt.
Sem heild styrktu stjórnmálaflokkarnir fjórir tök sín á þjóðfélaginu. Kjör Eggerts Haukdal á Suðurlandi var eina undantekningin frá þeirri reglu.
Við getum nú litið til fyrri áratuga og sagt, að því meira sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir í rauninni eins. Sú varð niðurstaða kosninganna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið