Gullhöllin og Tyrkjahöllin

Ferðir

Fljúgðu til Feneyja, farðu um borð í vaporetto númer eitt, hallaðu þér aftur og horfðu á hallir Stóraskurðar líða hjá. Þar sérðu hnignun Vesturlanda í hnotskurn. Fegurstar eru elztu hallirnar, Gullhöll, Hertogahöll, Tyrkjahöll Farsetti, Loredan og ótal fleiri. Allar í gótík eða fögrum stíl Miklagarðs, sem múslimar einir hafa síðan varðveitt í moskum sínum. Síðan koma þungar hallir endurreisnar, svo sem Grimani og Corner-Spinelli. Verstar eru yngstu barokk hallirnar, svo sem Pesaro og Balbi. Sjö ónýtar aldir í byggingalist liðu frá Miklagarði fram að 20. aldar fúnkis. Það má sjá við Stóraskurð.