Flókin hraðskák.

Greinar

Kjarasamningar eru lausir og fjárlög ríkisins eru ekki afgreidd. Hraði verðbólgunnar er kominn upp fyrir 80%. Þess vegna er lífsnauðsyn, að starfhæf ríkisstjórn verði fljótt mynduð.

Steingrímur Hermannsson er bundinn í báða skó. Fyrir og eftir kosningar hefur hann lýst því yfir, að eingöngu komi til greina ný vinstri stjórn. Þetta á eftir að tefja árangur hans.

Bezta ráðið til að þvinga óþæga flokka til hlýðni er að gefa þeim í skyn, að þeir séu ekki nauðsynlegir og að annars konar samstarf geti vel komið til greina.

Forustumenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sjá, að Steingrímur hefur engan hug á að tala nokkuð við forustumenn Sjálfstæðisflokksins. Og þetta munu óþægu flokkarnir nota sér.

Þegar hafa safnazt upp yfirlýsingar, sem benda til, að Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag muni ganga með þrjózku til viðræðna við Framsóknarflokk um stjórnarmyndun.

Þingmenn úr Alþýðubandalagi segja, að ný vinstri stjórn þurfi að vera raunveruleg vinstri stjórn. Með því eiga þeir við, að næst verði að taka meira tillit til Alþýðubandalagsins.

Þingmenn úr Alþýðuflokki og einkum þó ritstjóri Alþýðublaðsins segja, að Alþýðubandalagið sé tæpast hæft til stjórnarþáttöku og verði að fallast á efnahagsstefnu hinna flokkanna tveggja.

Allt stefnir því í sömu gryfju og áður. Væntanlegir samstarfsflokkar Steingríms Hermannssonar eru þegar komnir í hár saman, áður en viðræður eru hafnar um nýja vinstri stjórn.

Og Steingrímur getur ekki veifað neinni hótun um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur brennt brýrnar að baki sér og neyðist til að ná samningum til vinstri.

Satt að segja er vandséð, að honum takist það. Samningsaðstaða hans er veik. Samstarfsflokkarnir vaða uppi með kröfur og hótanir, sem stangast á í verulegum atriðum.

Þar á ofan er að magnast efi í hugum margra áhrifamanna í Alþýðuflokknum. Þeir eru þreyttir á samstarfi við Alþýðubandalagið og vilja fremur vera í minnihlutastjórn með Framsóknarflokki.

Auk þess er ekki laust við, að viðreisnardraumar hafi kviknað í Alþýðuflokknum. Fylgja þeir auknum áhrifum Jóns Baldvins Hannibalssonar, ritstjóra Alþýðublaðsins, í flokknum.

Jón Baldvin og aldavinur hans, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, áttu mikinn þátt í stjórnarslitunum, sem leiddu til þingrofs og kosninga.

Ný viðreisn átti að vera rökrétt niðurstaða. En fyrir Sjálfstæðisflokkinn var tímasetningin röng. Slæleg forusta með hrjúfa stefnuskrá klúðraði kosningabaráttunni á fullkominn hátt.

Alþýðuflokkurinn kom mun betur út úr þessu braski. Honum græddist fylgi á fáti Sjálfstæðisflokksins síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar og tókst að forðast alvarlegt fylgishrun.

Í Alþýðuflokknum telja margir, að flokkurinn eigi nú völ vinstri stjórnar, viðreisnar, minnihlutastjórnar með Framsóknarflokki og jafnvel eigin minnihlutastjórnar.

Verði ný vinstri stjórn ofan á, þarf Alþýðuflokkurinn að sýna fram á, að hann hafi í stjórnarsáttmála náð einhverjum þeim árangri, er réttlæti slit síðustu vinstri stjórnar.

Fróðlegt verður að sjá, hvernig Steingrími gengur hlutverk sáttasemjara við þessar erfiðu aðstæður. Ekki bætir það úr skák hans, að þjóðarbúið rambar og tímahrakið er geigvænlegt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið