Átta og hálfur tími.

Greinar

Hvernig hefðu björgunarstörf gengið þriðjudaginn 18. desember, ef leita hefði orðið slysstaðar í myrkri og hríð? Í fjöllum og óbyggðum, fjarri alfaraleiðum?

Enginn vafi er á, að flugslysin tvö á Mosfellsheiði verða skipuleggjendum björgunarmála alvarlegt umhugsunar- og umræðuefni. Við það tækifæri fóru of mörg atriði í handaskolum.

Löngu fyrir síðara slysið mátti ljóst vera, að frekari notkun þyrlu yrði erfiðleikum bundin, úr því að hún varð veðurteppt í Reykjavík. Samt tók björgunin alls átta og hálfa klukkustund.

Okurtollar á talstöðvum björgunarsveita eru þáttur vandans. Græðgi ríkissjóðs veldur því, að talstöðvar kosta tæpar tvær milljónir króna hver í stað tæprar einnar milljónar króna.

Fjarskiptin voru einmitt sá þáttur, sem einna mest fór í handaskolum, sumpart vegna fátæktar björgunarsveita. Tvö kerfi voru í notkun og var sambandslaust milli þeirra.

Þar á ofan var haldið uppi samkeppni milli móðurstöðva með tilheyrandi samslætti og lélegu sambandi. Þar kom í ljós agaskortur, sem og á ýmsum öðrum sviðum aðgerðanna.

Skilaboð milli sjúkrahúsa og lækna á slysstað voru ekki flutt um fjarskiptakerfin. Og læknar á slysstað fengu raunar litlu ráðið um aðhlynningu hinna slösuðu.

Í talstöðvum sjúkrabíla stönguðust fyrirskipanir á. Ýmist var sagt, að aka ætti fólki til Borgarspítalans eða Landspítalans. Eins og í öðrum þáttum virtust allir stjórna í senn.

Viðkomandi lögregluyfirvöld virtust ekki fela neinum ákveðnum aðila stjórn mála á slysstað. Þar ríkti hin hefðbundna samkeppni björgunarsveita, sem áður hefur verið til vandræða.

Útbúnaður björgunarmanna var ekki í lagi . Slökkviliðsmenn voru í einkennisbúningi án hlífðarfata og á blankskóm. Engin skófla var í björgunarsveitarbíl, sem sat fastur.

Þrek sumra björgunarmanna var mun minna en nauðsyn krafði. Sumpart veldur því hin mjög svo tímafreka fjársöfnun þeirra í tolla handa ríkissjóði, sem dregur úr tíma til þjálfunar.

Skipuleggjendur björgunaraðgerða virtust ekki hafa gert sér grein fyrir kostum vélsleða við björgunarstörf að vetrarlagi. Þeir voru heppnir, að einkaaðilar komu með slík tæki á vettvang.

Reynt var að brjótast með fjallatrukka á slysstað, þótt ljóst mætti vera, að vegna veltings og hristings yrði ekki hægt að flytja sjúklinga í þeim til baka.

Hugsanlegt er, að björgunarstörf hér á landi séu orðin svo háð þyrlum, að menn hafi misst sjónar á skynsamlegum vinnubrögðum, þegar fara þarf landleiðina með slasað fólk.

Enn eitt atriðið, sem kallar á skoðun, er tenging almannavarna við björgunaraðgerðir. Opnun stjórnstöðvar almannavarna eftir síðara slysið virtist auka flækjur málsins.

Skipuleggjendur björgunarmála þurfa nú að læra sameiginlega af þeirri reynslu, sem fékkst af átta og hálfs tíma handaskolum vegna slyss í nágrenni þjóðvegar og nágrenni Reykjavíkur.

Afnám tolla á talstöðvum er mikilvægur þáttur endurbóta, en engan veginn hinn eini. Allir aðilar björgunarmála þurfa að líta í eigin barm, svo að betur megi takast næst.

En ekkert er svo með öllu illt, að ekki sjáist bjartar hliðar. Eftirminnilegt er t.d. afrek Skúla Karlssonar, sem sýndi mikið snarræði, þegar hann slökkti á aðalrofa þyrlunnar og kom þannig sennilega í veg fyrir eldsvoða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið