Tómt mál er að tala um, að Rauði krossinn og kirkjulegar hjálparstofnanir hafi ekki staðið sig nógu vel í hjálparstarfi í lndókína. Þessar stofnanir reyna sitt bezta við einstaklega erfið stjórnmálaskilyrði.
Umfangsmest hefur hjálparstarfið verið í nágrannalöndunum. Það hefur einkum beinzt að svonefndu bátafólki, en það er fólk af kínverskum ættum, sem hefur verið hrakið frá Vietnam í smáum og stórum bátum út á hafið.
Upp á síðkastið hafa Thailendingar gefið hjálparstofnunum aukið tækifæri til að koma til skjalanna á landamærum Thailands og Kampútseu, þar sem hrannast upp fólk á flótta undan borgarastyrjöldinni í Kampútseu.
Alþjóðlegar hjálparstofnanir geta ekki starfað gegn vilja ráðamanna á viðkomandi stöðum . Þess vegna hefur enn sem komið er tiltölulega lítill hluti hjálparstarfsins verið unninn innan landamæra Kampútseu.
Sumpart er þar um að ræða erfiðleika, sem oft fylgja borgarastyrjöldum. Hinir stríðandi herir gera hjálpargögn upptæk til sinna eigin þarfa og reyna að hindra, að hjálp berist íbúum á yfirráðasvæði hins aðilans.
Þar á ofan bætast deilurnar um réttarstöðu Pol Pots ríkisstjórnarinnar, sem er studd af Kínverjum og Heng Samrin ríkisstjórnarinnar, sem er nánast leppstjórn Víetnama. Sú deila hefur borizt inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna.
Ísland og ýmis önnur ríki á Vesturlöndum studdu hjá Sameinuðu þjóðunum það sjónarmið, að Pol Pot stjórnin væri hin gilda ríkisstjórn í Kampútseu. Þetta hefur spillt fyrir vestrænu hjálparstarfi á svæðum Heng Samrin stjórnarinnar.
Nú verða menn að hafa í huga, að stjórnmálaleg viðurkenning ríkisstjórna felur ekki í sér neitt samþykki á stefnu hennar eða störfum. Við viðurkenndum stjórnir Sovétríkjanna og Tékkóslóvakíu, þótt við séum ekki sammála þeim.
Í viðurkenningu Íslands á Pol Pot ríkisstjórninni felst ekki hin minnsta viðurkenning á einstæðum grimmdarverkum hennar. Í viðurkenningunni felst aðeins staðfesting á því, að þessi stjórn hafi raunverulega verið við völd.
Í borgarastyrjöldum er stundum matsatriði, hvaða ríkisstjórn skuli teljast vera gild. Oft hefur þá verið miðað við þá stjórn, sem hefur höfuðborgina á sínu valdi. Samkvæmt því gæti verið tímabært að viðurkenna Heng Samrin stjórnina.
Við slíkt mat skiptir ekki máli, hvor ríkisstjórnin er meiri leppstjórn erlendra aðila. Ennfremur er vafasamt að starfsaðstæður hjálparstofnana geti haft umtalsverð áhrif á slíkt mat.
Íslenzka ríkisstjórnin verður ekki sökuð um að spilla fyrir hjálparstarfi í Kampútseu með atkvæði Íslands í þágu Pol Pots stjórnarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í mesta lagi má saka hana um vanmat á valdastöðu í Kampútseu.
Ofan á öll vandræðin, sem fylgja borgarastyrjöldum bætast þau, sem tengd eru skefjalausri hugmyndafræði deiluaðila í Kampútseu. Hugsjónir fjöldamorðingjanna eru svo víðtækar, að engar mannlegar tilfinningar sitja eftir.
Við þessar aðstæður er aðeins hægt að treysta því, að fagmenn hjálparstarfsins nái þeim árangri, sem mögulegur er hverju sinni, og því beri okkur að styðja þá, svo sem við höfum gert á undan förnum vikum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið