Sextán dagar, sæmilegt það.

Greinar

Geir Hallgrímsson er búinn að slá Steingrími Hermannssyni við í tímalengd stjórnarkreppunnar. Steingrímur gafst upp eftir 15 daga tilraunir til myndunar stjórnar. Geir hefur nú þegar verið að í 16 daga og er kominn álíka langt og Steingrímur var á þriðja degi.

Með sama áframhaldi má búast við, að það taki Geir allar götur fram undir páska að feta sömu leið og Steingrímur hljóp á tveim vikum fyrir jól. 16 dagar hafa farið í athugun málsins, undirbúning þess, og hugsanlegar tilraunir til að koma á formlegum viðræðum!

Örlitil hreyfing komst á viðræður um helgina, þegar Geir byrjaði fyrst að þinga með viðsemjendum sínum. Málið er þó ekki komið lengra en svo, að í gær sagði Geir um fyrirhugaðan fund í dag: “Ég legg áherzlu á, að þetta eru ekki formlegar stjórnarmyndunarviðræður.”

Það er semsagt tæpast ljóst enn, hvort tilraunir Geirs til stjórnarmyndunar eru hafnar eða ekki. Það er ekki heldur ljóst, hvort tvær leiðir í efnahagsmálum, sem hann hefur sent Þjóðhagsstofnun til útreiknings, eru eins konar tillögur eða bara reikningsæfingar.

Um þokuna yfir þessu andaglasi má vitna til orða Geirs. Í gær sagði hann í sínum sérstæða stíl, “að þar væri ekki um tillögur Sjálfstæðisflokksins að ræða, heldur einungis upplýsingamiðlun til að kanna fleti, sem upp kynnu að koma í sambandi við þjóðstjórnarviðræður”.

Þessar tvær lausaloftshugmyndir, sem enginn ber ábyrgð á, eru í svipuðum stíl og fyrri tillögur Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Þær ganga heldur lengra í hjöðnun verðbólgunnar og í kjaraskerðingu. En þær fela líka í sér stærri félagsmálapakka, og þá væntanlega meiri skatta.

Tillögur Framsóknarflokksins gera ráð fyrir 38% verðbólgu á árinu, Alþýðuflokksins 34% og tvær hugleiðingar (?) Sjálfstæðisflokksins 31% og 28%. Kjararýrnun tillagna Framsóknarflokksins er áætluð 4,2%, Alþýðuflokksins 6,2% og Sjálfstæðisflokksins 8,2%.

Líklegt er, að leið Framsóknarflokksins sé Alþýðubandalaginu minnst á móti skapi, af því að hún dregur minnst úr verðbólgunni og lífskjörunum. Þetta skiptir máli, þegar verið er að reyna við þjóðstjórn, þótt Alþýðubandalagið hafi raunar áður einmitt hafnað tillögum Framsóknarflokksins.

Þjóðstjórn er mikilvæg forsenda allra tillagnanna, því að þær gera alls ekki ráð fyrir neinum grunnkaupshækkunum á árinu. Þær standast því ekki, nema vinnudeiludeild Alþýðubandalagsins verði geymd niðri í skúffu meðan bandalagið tekur á sig stjórnarábyrgð.

Þar sem Alþýðubandalagið er í eðli sínu ábyrgðarlítill stjórnarandstöðuflokkur, eru daufar líkur á, að það verði teymt inn í þjóðstjórn. Að vísu getur svo farið, að þolinmæði þjóðarinnar þrjóti svo, að bandalagið sjái sér þann kost vænstan að sýna ábyrgð.

Hitt er svo ljóst, að mismunandi tillögur eru ekki því til fyrirstöðu, að hinir flokkarnir þrír geti myndað stjórn. Þessar tillögur eru raunar aðeins mismunandi afbrigði sömu hugmyndar. Auðvelt ætti að vera að ná samkomulagi um það eitt og takast síðan á við vinnudeiludeild bandalagsins.

Auðvitað endar svona stjórnarkreppa einhvern tíma með því, að einhverjir stjórnmálaflokkar skammast sín, gleypa í sig stóru orðin og axla ábyrgðina, sem þeir eru kjörnir til að bera. Málin hafa þokazt í áttina, meira að segja á aðgerðaleysistíma Geirs Hallgrímssonar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið