Forsaga
Eftirstríðsárin
1787 segir í 1. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar: “Þingið má ekki setja nein lög um að koma á fót trú eða banna hana, takmarka málfrelsi eða prentfrelsi eða frelsi fólks til að hittast og til að senda stjórnvöldum bænarskjöl.”
Eftir 1848 var almennt farið að taka slík ákvæði upp í stjórnarskrám vestrænna ríkja í Evrópu. Slíkt ákvæði í dönsku stjórnarskránni auðveldaði blaðaútgáfu á Íslandi. Ekki er í þessum stjórnarskrám fjallað um frelsi fyrir ónæði fjölmiðla.
Ef ríkisstjórn ræður útvarpi, getur hún með síbylju og útilokun annarra sjónarmiða ráðið skoðunum fjöldans. Hitler komst að vísu ekki til valda út á útvarp, þar sem óvinir hans réðu. En hann réð ferðinni, þegar hann komst til valda.
Margt fólk gengur með útvarp á sér til að loka sig af fyrir umheiminum, búa til einkasvæði fyrir sig. Þegar sjónvarp tók við, varð útvarp vettvangur smáfrétta af tímanum, veðrinu, umferðinni. Veður hefur lengi verið kjörefni útvarps.
Útvarp er heitur miðill, sjónvarp er kaldur. McCarthy gekk fyrir útvarpi, en fjaraði út, þegar hann fór að birtast í sjónvarpi. Hann var æstur, það gekk í útvarpi, en alls ekki í sjónvarpi. Æst fólk virkar fráhrindandi í sjónvarpi.
Þegar Kennedy og Nixon deildu á ljósvakanum, töldu sjónvarpsáhorfendur, að Kennedy hefði sigrað í umræðunni, en útvarpshlustendur töldu, að Nixon hefði sigrað. Hin skörpu og skilmerkilegu tilsvör Nixons virkuðu gervilega í sjónvarpi.
Hin fræga útsending Orson Welles af Innrásinni frá Mars er dæmi um, hvernig útvarp heltekur fólk og gefur því svigrúm til að geta í eyðurnar. Hitler var dæmi um raunverulega útgáfu af Orson Welles og Innrásinni frá Mars.
Útvarp flutti fólk aftur til tímans fyrir tilkomu ritaðs máls. Útvarp er hreint frumafl fyrir fólk, sem lifir á ættbálkastigi. Það hefur miklu minni áhrif á fólk, sem er skólað í vel læsu umhverfi í stjórnmálum og viðskiptum.
Gutenbergtæknin var tvær eða þrjár aldir að breyta heiminum. Fólk fór að skipast í þjóðir. Tilkoma útvarps flutti fólk aftur til tímans fyrir Gutenberg. Útvarpið breytti líka dagblöðum, auglýsingum, leiklist og ljóðlist.
Menn hafa ekki tekið nógu vel eftir áhrifamætti útvarps. Það er útvarpið, sem var að baki viðsnúnings frá einstaklingshyggju yfir í ættflokkamennsku á borð við fasisma eða marxisma og aðra samhyggju.
Þegar menn reyna að gera útvarp húsum hæft á Vesturlöndum, finna menn ekki annað ráð en að leggja áherslu á skemmtigildið. Einhvern tíma verður reynt að hemja útvarpið, en hingað til hefur eingöngu verið reynt að hemja dagblöðin.
Börnum er í skólum kennt að nota dagblöð og hafna þeim. Engin slík kennsla fer fram um, hvernig þau eigi að nota útvarp og hafna útvarpi. Ekki heldur, hvernig eigi að nota sjónvarp og hafna því.
Írland, Skotland og Wales eru lönd, þar sem upprunaleg tunga hefur verið endurvakin í útvarpi. Enn stærra dæmi er Ísrael, þar sem tekin var upp tunga, sem hafði öldum saman verið dauð, og gerð að ríkismáli, sem allir nota, hebreska.
Þar sem sjónvarp hefur að miklu leyti tekið við fyrra hlutverki útvarps, er útvarpið núna frjálst til að þjónusta afmörkuð svæði, sem það gerði ekki áður fyrr. Athyglisvert er, að veðurfréttir eru meira spennandi en fréttir í útvarpi.
Sjónvarp byrjaði í Bandaríkjunum 1939, en frestaðist síðan fram yfir stríð. Vöxtur þess byrjaði svo fyrir alvöru upp úr 1950. Það er orðið að þungamiðju í lífi fólks. Stafrænt sjónvarp er svo ný bylting í þessum miðli.
Sjónvarpið kom 1950. Útvarpsmenn fluttu hefðina áfram þangað. Af nútímamiðlum kemst sjónvarpið næst fortíðinni, þar sjá fréttanotendur þann, sem segir fréttina. En núna er samhengið ekki lengur beggja átta, það er einnar áttar.
Eins og penníblöðin upp úr 1830, eins og gula pressan upp úr 1880 og eins og smábrotsblöðin upp úr 1920 hefur sjónvarpinu tekist að ná til almennings. Miðað við það er merkilegt, að sjónvarpsfréttir skuli ekki vera æsilegri en þær eru.
Eins og útvarpið stældi fyrst framsetningu blaða, þá stældi sjónvarp fyrst framsetningu blaða og útvarps. Stytta varð hinar löngu setningar dagblaða til að hægt væri að nota þær í útvarpi og einkum þó í sjónvarpi. Akkerismenn urðu til.
Fyrst var aðeins hægt að nota tólf rásir fyrir sjónvarp, sem leiddi til fáokunar tveggja keðjustöðva, NBC og CBS, Rúv og Stöð 2 hér. Til að hamla gegn hugmyndum um ríkiseftirlit settu sjónvarpsstöðvar vestra sér reglur, sem fólu í sér að verja auglýsingarnar.
Árið 1951 settu sjónvarpsstöðvarnar sér reglur, sem minntu á Hollywoodreglurnar. Árið áður hafði verið gefin út skýrsla, þar sem stöðvarnar voru sakaðar um að þjóna kommúnisma. 150 leikarar og starfsmenn voru þá settir á svartan lista.
Sjónvarpsstöðvarnar þjónustuðu andkommúnista í heilan áratug með svörtum lista og langvarandi áhrifum á innihald efnisins. Árið 1954 var því enn haldið fram, að sjónvarpið væri gróðrarstía kommúnisma. Nú er því haldið fram um alla fjölmiðla.
Leikræn tjáning er önnur í sjónvarpi en í kvikmyndum. Þar er minna pláss fyrir umsvifamiklar hreyfingar, ýkt raddbrigði. Sjónvarpsskjárinn tekur eina eða fáar persónur í mynd, meðan kvikmynd er oft með miklu fleiri persónur í mynd.
Enska er fjölmiðill eins og öll tungumál heimsins. Nýju fjölmiðlarnir, kvikmyndir, útvarp, sjónvarp, eru ný tungumál með óþekktri málfræði. Sérhvert þessara tungumála meðhöndlar raunveruleikann á sinn hátt.
Fréttaþáttur í útvarpi eða sjónvarpi hefur nokkra fréttaþuli á ýmsum stöðum í heiminum. Á svipaðan hátt er dagskrá rofin með auglýsingum. Börnum finnst ekkert athugavert við slíkt, þau líta ekki á auglýsingu sem truflun. Þar brosir fólk þó.
Í sjónvarpi er sérstaðan notuð. Myndin hvílir ekki á þeim, sem talar, heldur á viðbrögðum hins, sem hlustar. Sjónvarpið er mitt á milli kvikmynda og leikhúss, það hefur færri andlit í mynd en stórmyndirnar hafa.
Dagblöðin sýna fólk ekki í hreyfanlegri mynd. Það kom aftur með sjónvarpi og er mikil bylting. Eins og útvarpið endurvakti tilbrigði og áherslur í töluðu máli, þá endurvakti sjónvarpið svipbrigði og handahreyfingar, skap og hughrif án orða.
Nýir fjölmiðlar fara aðrar leiðir en gömlu miðlarnir. Nýir fjölmiðlar eyðileggja ekki gamla miðla, heldur geta hresst þá við. Nýr fjölmiðill frelsar gamla fjölmiðla undan ábyrgð, sem þeir réðu ekki við. Hver fjölmiðill hefur sína sýn á veruleikann.
Fjölmiðillinn er ekki umslag, sem flytur hvaða bréf, sem er. Hver fjölmiðill hefur sín sérkenni. Þótt efnið sé það sama, hefur hver fjölmiðill sín áhrif í flutningi þess. Til dæmis er mikill munur á fyrirlestri í kennslustofu og sjónvarpskennslu.
Sjónvarpskennsla er áhrifamesta kennslan, áhrifameiri en fyrirlestrar, kvikmyndir, útvarp og prentmál. Getur prentað mál lifað af í þessari fjölbreytni? Svarið er, að kennslubækur geta það ekki.
Sjónvarpstækið gegnir lykilhlutverki á heimilum. Það kemur í stað arinsins eða píanósins. Fólkið situr í hálfhring umhverfis það. Sjónvarpið er orðið að eins konar lími, sem dregur saman fólk, sem að öðrum kosti lifir hvert sínu lífi.
Auglýsingar á sjónvarpstækjum gefa í skyn, að það sé hvati afturhvarfs til ástar og friðar á heimili. Sjónvarpið er eins og búseta í úthverfum, bráðabirgðalausn neysluþjóðfélags á pólitískum, efnahagslegum og félaglegum vanda.
Foreldrar segja, að sjónvarpið haldi börnum þeirra frá götunni. Það er hámark lífsgæðanna, þegar tengdasonurinn situr með allri fjölskyldunni og horfir á sjónvarp með henni. En nú hefur raunar hver sitt sjónvarp inni í sínu herbergi.
Ný tækni hefur þvingað dagblöðin til að fara aftur út í lengri texta, meiri fréttaskýringar og bakgrunn. Texti blaðanna er sumpart orðinn lengri og hægari en hann varð stystur. Hinn aldagamli fréttaskortur hefur breyst í offlæði frétta.
Tilkoma vefsins hefur þrýst dagblöðum og sjónvarpi í vörn. Ungt fólk temur sér ekki að nota hefðbundna fjölmiðla og snýr sér fremur að vefefni og leikjum eða persónumiðlum á borð við MySpace og Facebook. Farsími er að taka við af tölvum.
Brotthvarf kynslóðar sjötta áratugarins úr faðmi fjölskyldunnar inn í ótryggan heim hippa og bítla ógnaði bandarískum lífsháttum. Sjónvarpið átti erfitt með að taka á þessu og fjalla um ungt fólk, sem ekki vildi horfa á sjónvarp.
Áhorfstölur í sjónvarpi slengdu saman öllum á aldrinum 1849 ára á þeirri forsendu, að það væri markhópur auglýsenda. Í rauninni voru þetta tveir aðskildir hópar, sem höfðu ólíkan áhuga á sjónvarpi. Enda eru sjónvarpsstjörnur miðaldra.
Með því að taka upp tungutak, fatnað, hegðun og tónlist hinna byltingarsinnuðu ungmenna reyndi sjónvarpið að afvopna andstöðuna og selja henni vörur um leið. Þetta var öfugt við ritskoðun, ekki var reynt að einangra svokallað vandamál.
Unga fólkið lét ekki sjónvarpið snúa sér. Það var ekki óvirkt í áhorfi. Unga fólkið kærði sig ekki um fjölmiðla, það átti sína antífjölmiðla, til dæmis sértímarit. Sjónvarpinu mistókst að draga til sín unga fólkið og mistekst enn.
Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé