Gleymi Tilverunni of oft, því að hún er svo afskekkt, við Linnetstíg í miðbæ Hafnarfjarðar. Hef samt hrósað matstofunni látlaust síðan hún var opnuð fyrir fimm-sex árum. Fiskurinn skiptir mestu, létt eldaður og nákvæmlega passlegur. Drukknar ekki í sósum eins og svo víða á öðrum matstöðum. Súpa, fiskur og kaffi kosta ekki nema 1900 krónur í hádegi. Spergilsúpan var góð, en með of söltu brauði. Steikt grænmeti og hrásalat með steinbítnum var gott, en kartöflustappan hituð í örbylgju. Piparsósan var þægilega mild. Sjálfvalið kaffi var gott espresso, borið fram með konfekti. Vinsæll staður.