Vilmundur Gylfason hefur efnt til ókeypis lögfræðiaðstoðar handa almenningi. Hann hefur ráðið valinkunnan flokksbróður til að fræða fólk um myrkviði lögfræðinnar. Það er sérdeilis fallega hugsað.
Ekki sakar, að Finnur Torfi Stefánsson er í Alþýðuflokknum. Hann féll í síðustu kosningum og hefur verið atvinnulaus að undanförnu. Er nú séð fyrir því, að hann getur horft björtum augum til framtíðarinnar.
Meginatriði þessa máls er, að Vilmundur hefur hlaðið mikilvægum steini í þá kenningu, að þeir séu allir eins, þegar þeir komist til valda. Virðist nú loku fyrir það skotið, að Vilmundur skrifi fleiri kjallaragreinar um spillingu.
Eitthvað virðist hinum nýja lögfræðiráðgjafa hafa orðið á í messunni, þegar hann hélt, að verkefni sitt ætti að vera að halda dómstólum við efnið, senda þeim bréf með siðaprédikunum úr gömlum kjallaragreinum.
Nú vill svo til, að samkvæmt stjórnarskránni er það ekki verkefni dómsmálaráðuneytisins að aga dómara landsins. Í því plaggi þykir mikilvægt, að dómstólar séu tiltölulega óháðir stjórnvöldum.
Við vitum, að dómarar landsins eru almennt nokkuð seinlátir, hafa langa kaffitíma og löng sumarfrí. Fyrir það getum við saumað að þeim í kjallaragreinum, en tæpast með áminningum úr dómsmálaráðuneytinu.
Það virðist sameiginlegt Finni Torfa og Vilmundi, að þeir telja þetta nýja embætti vera eins konar tilraun til umboðsmanns almennings. Vísa þeir til slíkra embættismanna, sem hafa gert garðinn frægan á Norðurlöndum.
Nágrönnum okkar hefur hins vegar ekki dottið í hug, að umboðsmaður almennings gæti verið aðstoðarmaður ráðherra, allra sízt flokkspólitískur aðstoðarmaður. Þar er umboðsmaðurinn ekki angi af framkvæmdavaldinu.
Finnur Torfi Stefánsson er orðinn starfsmaður í stjórnarráðinu. Sem slíkur er hann fulltrúi framkvæmdavaldsins, einmitt þess valds, sem hættulegast er almenningi. Sem umboðsmaður almennings er hann því milli steins og sleggju.
Það er athyglisvert, hversu yfirborðsleg er þekking núverandi dómsmálaráðherra. Hann veit, að umboðsmenn almennings eru mikilvægir á Norðurlöndum. Síðan heldur hann, að hann geti búið til slíkan mann í ráðuneytinu hjá sér.
Þar úti er umboðsmaðurinn skipaður af þingi. Hann tekur við kærum almennings út af valdníðslu framkvæmdavaldsins, til dæmis dómsmálaráðuneytisins. Hann er hvorki undirmaður Vilmundar Gylfasonar né Baldurs Möller.
Finnur Torfi er örugglega ekki minnsti vísir að umboðsmanni almennings. Hann er einfaldlega pólitískur aðstoðarmaður ráðherra. Enda hefur hann sagt það eðlilegt, að flokkspólitík ráði vali í þetta starf.
Vilmundur hefur reynt að telja okkur trú um, að siðbót sé fólgin í þessari uppákomu hans. Ef hann trúir því sjálfur, er hann einfaldur. Og trúi hann því ekki, er hann einfaldlega eins og hinir, siðspilltur pólitíkus.
Svo virðist sem Vilmundur og Finnur Torfi hafi áttað sig á mistökunum. Háloftamálin eru úr sögunni og umboðsmaðurinn sér um ókeypis lögfræðiaðstoð við almenning. Það er án efa þarft starf, ef það heitir réttu nafni.
En kjarni málsins er sá, að alþýðuflokksmaður hefur fengið vinnu hjá kerfinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið