Enn eru þeir að tala um vinstri stjórn rúmum sjö vikum eða 50 dögum eftir kosningar. Enginn veit með vissu, hver niðurstaðan verður eða hvenær. Á meðan rambar þjóðfélagið jafn stjórnlaust og það gerði fyrir kosningar.
Stjórnarkreppan hefur raunar staðið lengur. 109 dagar eru síðan samstarf vinstri flokkanna rofnaði formlega með sérstakri samþykkt í þingflokki Alþýðuflokksins. Í 100 daga hefur ekki yerið starfhæfur meirihluti á þingi.
En þetta segir ekki alla söguna. Þjóðfélagið var jafn stjórnlaust fyrir 5. október og það hefur síðan verið. Það hefur raunar verið stjórnlaust í 576 daga, – frá alþingiskosningunum 25. júní 1978.
Sú vinstri óstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, sem þá komst til valda, innleiddi 576 daga samfellda óreiðu í stjórn landsins. Einkenni hennar voru sífelld upphlaup, úlfúð og illindi samstarfsflokkanna.
Þessi óstjórn leysti af hólmi hægri óstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem naut svo lítillar virðingar, að hún var jafnvel talin verri en næsta vinstri óstjórn þar á undan. Þannig hafa stjórnmálin verið í heilan áratug.
Stjórnarkreppa síðustu vikna er þáttur í hruni íslenzkra stjórnmála, sem staðið hefur í um það bil áratug. Stjórnmálamennirnir hafa smám saman verið að missa síðustu tök á verkefni sínu og vita nú hvorki í þennan heim né annan.
Munurinn á lélegum efnahagsstefnum flokkanna er þó ekki slíkur, að góðir samningamenn ættu að geta brætt saman meirihluta á skömmum tíma. En forustumenn flokkanna eru bara ekki góðir samningamenn, ekki góðir stjórnmálamenn.
Talningarnæturþáttur sjónvarpsins af kosningafundinum illræmda á Vestfjörðum sýndi íslenzka stjórnmálamenn í hnotskurn. Þar réði ríkjum fullkomin lágkúra. Þeir voru kjaftforir í ræðustól eins og strákar á málfundi.
Hugmyndaskortur íslenzkra stjórnmálamanna endurspeglast í hinum gamalkunnu íhaldsúrræðum, sem þeir hafa um að tefla í tilraunum til stjórnarmyndunar. Öll ganga þessi úrræði beint og óbeint út á að banna verðbólgu með lögum.
Hvergi er í stjórnmálunum að sjá þá reisn, er dugi til að fylkja þjóðinni að baki. Margir ágætir menn eru í hópi 60 þingmanna. En einkennisvera hópsins er samt hugmyndasnauður skrípakarl, sem getur sagt klámsögur í ræðustól.
Ofan á þetta böl óskýrrar hugsunar hleðst svo böl spillingar og samtryggingar, er þessir menn hreiðra um sig og sína í öllum þeim stofnunum, sem lána og gefa peninga, – með kommissara Framkvæmdastofnunar efsta á haugi.
Íslendingar eru ekki hæfileikasnauðari en aðrar þjóðir. Hæfileikarnir hafa beinzt að vísindum og listum, læknis- og verkfræði, veiðimennsku og skáktafli. Og því miður eru þeir farnir að beinast að landflótta.
Vaxtarbroddur hæfileika hefur um langt árabil ekki verið í stjórnmálum. Reisn þeirrar stéttar hefur farið sígandi. Stjórnmálin freista ekki manna, sem þjóðin þarf á að halda sér til forustu, manna með hæfileika, víðsýni og reisn.
Verið getur, að þjóðin eigi þá stjórnmálamenn, sem hún á skilið. Okkur kjósendum til afsökunar má þó benda á, að kosningakerfi raðaðra lista gerir okkur nánast ókleift að velja þá menn, sem við treystum bezt.
Það væri spor í rétta átt úr lægðinni, ef við fengjum stjórnarskrá og kosningalög, sem útilokuðu hina fyrirfram röðuðu lista í kosningum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið